139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

676. mál
[15:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi samningur fjallar um stjórnsýsluaðstoð í skattamálum og því tel ég einboðið að málinu verði vísað frá utanríkismálanefnd til skattanefndar til ítarlegrar umfjöllunar þar vegna þess að þar liggur þekkingin í skattamálum.

Ég var að velta fyrir mér ef skattyfirvöld hefðu viljað fá upplýsingar frá t.d. Lúxemborg eða London um ákveðnar færslur sem þau hefðu orðið vör við í bókhaldi fyrirtækja á Íslandi hvort þessi samningur hefði liðkað fyrir að þær upplýsingar kæmu.

Það er líka annar flötur á þessu sem frumvarpið tekur væntanlega ekki á. Það er þegar stórir hluthafar holuðu hlutafélögin að innan og gengu í rauninni á rétt minni hluthafa í stórum stíl þannig að 60 þús. manns töpuðu um 80 milljörðum — ósköp venjuleg heimili töpuðu um 80 milljörðum og geta ekki gert sér neina von um að ná þeim peningum aftur. Þar brugðust stærstu hluthafarnir. Ég sé ekki að þetta frumvarp taki endilega á því nema það komi þá sem aukaafurð þegar verið er að rannsaka skatt fyrirtækja að eitthvað sviksamlegt komi í ljós gagnvart minni hluthöfum í viðkomandi fyrirtækjum. Það gæti komið í ljós.

Þetta er mjög áhugavert mál og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að flytja það. Ég hef skilning á að hann geti ekki svarað fyrir allt sem þar er tæpt á því að frumvarpið er líka mjög viðamikið og tekur á mörgum málum.