139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

676. mál
[15:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Mér finnst ótækt að svona viðamikið frumvarp fari í gegn algjörlega umræðulaust og ég bendi á að það á við ótölulega marga skatta sem við leggjum á. Það stendur í viðauka A að það taki til tekjuskatts til ríkisins, eignarskatts til ríkisins — þá er væntanlega átt við auðlegðarskattinn — og síðan tekju- og eignarskatts innlánsstofnana o.s.frv. Meira að segja er sagt í F-lið að það taki til iðnaðarmálagjalds sem er búið að leggja niður þannig að það þyrfti að skoða, eða hætta að innheimta skulum við segja — það var ekki lagt niður því að þó að það væri mannréttindabrot taldi hæstv. ríkisstjórn ekki ástæðu til að afnema lögin sem brutu mannréttindi. Það lýsir kannski hæstv. ríkisstjórn betur en Mannréttindadómstóli Evrópu.

Hér er sem sagt tekið á því að stjórnvöld aðstoði hver önnur við upplýsingar um rannsóknir skattamála. Með alþjóðavæðingunni og útrásinni og öllu sem því fylgdi og aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, þar sem hvatt er til þess að fyrirtæki og einstaklingar eigi eignir og séu með efnahagslega starfsemi annars staðar en á Íslandi, kemur náttúrlega upp sá vandi að fylgjast með því hvar menn eru staddir og hvað þeir eru að gera og hvernig hægt er að staðfesta það, eins og með auðlegðarskattinn. Þegar telja á til allar eignir sem menn eiga, beint og óbeint, í gegnum hlutafélög og annað er náttúrlega mjög mikilvægt að skattyfirvöld hafi upplýsingar um gögn alls staðar. Þótt ég sé ekki þar með að styðja þann slæma skatt vildi ég samt geta þessa.

Ég vil koma því að, herra forseti, í þessu sambandi að í auðlegðarskattinum eru ekki verðmæti lífeyrisréttinda sem geta verið miklu meira virði en þau mörk sem við erum að tala um, 75 millj. kr. Ég geri ráð fyrir að sumir ráðherranna séu með það góð lífeyrisréttindi að þau mundu falla undir auðlegðarskatt ef metin væru til fjár. Það er ekki gert og þarf að laga að mínu mati.