139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[15:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar að spyrja hann örfárra spurninga. Í fyrsta lagi: Nái þessi þingsályktunartillaga fram að ganga og þau frumvörp sem þurfa að fylgja henni — ef ég veit rétt eru þau tvö og mér finnst mjög sérkennilegt að þau skuli ekki vera rædd í samhengi og í framhaldi af þessu — erum við þá að ganga lengra en önnur ríki sem hafa verið að taka upp Árósasamninginn? Mér er sagt að einungis eitt ríki hafi tekið þetta upp með þessum hætti, sem er Holland, og síðan hafi það farið aftur inn á fyrri braut því að flækjustigið sem þarf að fara í gegnum, sem ég get svo sem sýnt hæstv. utanríkisráðherra hér, finnst mér ærið eins og það er. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hafi sannfæringu fyrir þessu máli, hvort hann telji ekki að við séum að ganga miklu lengra en aðrar þjóðir.

Mig langar líka að spyrja, vegna þess að mér finnst hæstv. ríkisstjórn alltaf vera að beina kröftum sínum að því að bæta við verkefnum sem eru þó nægjanleg fyrir: Reynslan sýnir okkur, t.d. í úrskurðarnefnd um byggingar- og skipulagsmál, sem hefur samkvæmt reglugerð 4–8 vikur til að úrskurða í málum, að staðan er þannig að í síðustu 20 málum hefur það að meðaltali tekið 40 vikur að úrskurða, þ.e. tíu sinnum lengri tíma en til er ætlast í reglugerð (Gripið fram í: Hjá?) — hjá úrskurðarnefnd um byggingar- og skipulagsmál. Það er fyrirséð að að sjálfsögðu muni kærunum fjölga, verði þetta að veruleika. Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af því þegar staðan er sú í dag að nefnd eins og úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála þarf tíu sinnum lengri tíma til að úrskurða en til er ætlast að það muni þá fara á enn verri veg?