139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[16:16]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ljóðrænuna í ræðu þeirri sem hann flutti hér, allmælskur að venju. Ég held við deilum alveg sömu sýn til þessara mála í öllum grundvallaratriðum. Ég leyfi mér að fullyrða að staða Íslands í umhverfismálum, m.a. fyrir atbeina hæstv. ráðherra meðan hann var umhverfisráðherra, er í öllum alþjóðlegum samanburði mjög sterk í þeim efnum. Þar sem ég hef reynslu af því úr sveitarstjórnum áður fyrr að vinna í samskiptum við umhverfisráðuneytið undir stjórn hæstv. þáverandi umhverfisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, veit ég að sá ráðherra er ágætlega lausnamiðaður og ég treysti því að hann horfi til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið sem lúta allar að því að það vilji allir í grunninn vel í þessu máli. Það er óþarfi að búa til aukinn kostnað, auka flækjustigið, tefja og þvæla málum fram. Við höfum séð í athugasemdum sem gerðar voru við frumvarpið meðan það var í auglýsingu hjá ráðuneytinu að þar bera menn sem eru í forsvari fyrir ýmiss konar samtök, kvíðboga fyrir því regluverki sem af því leiðir. Miðað við þær upplýsingar sem við höfum af gangi mála sem skotið er til hinna ýmsu úrskurðarnefnda sem nú þegar eru starfandi er það algjörlega óviðunandi fyrir alla aðila máls að það kunni að tefjast allt upp í rúm þrjú ár að fá úrskurð um eitt einstakt mál sem þangað er vísað.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra, í trausti þess hversu lausnamiðaður hann var í umræðu sinni, hvort hann sé ekki tilbúinn að leggja því liðsinni sitt að forða slíkum flækjum sem í stefnir ef niðurstaða málsins og innleiðingarinnar ætlar að fara í þá veru.