139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding Árósasamnings um aðgang að upplýsingum o.fl.

678. mál
[16:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður á að vita það, utanríkisráðherra leggur jafnan hönd sína hvarvetna til friðar og sátta ef svo má verða. En almennt er ég náttúrlega þeirrar skoðunar að það á að hafa sem minnst flækjustig í stjórnsýslunni. Ég held að það sé hægt í þessu máli, a.m.k. finnast mér þeir þingmenn sem tekið hafa til máls hafa talað með þeim hætti að það ættu að vera góðir möguleikar til þess. Ekki skortir á atbeina minn til þess.

Ég ítreka enn og aftur að ég held að ástæðan fyrir því að það er ákveðin varhygð sem glittir í gagnvart þessu máli stafi af því að stjórnsýslan hefur staðið illa við að standa við fresti. Það hefur oft verið bagalegt. Ég verð að viðurkenna að mig rak í rogastans við þær upplýsingar sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson gaf hér áðan um að meðgöngutími ákvarðana þeirrar nefndar sem hann rakti til sögu, úrskurðarnefndar um byggingar- og skipulagsmál, væri tífalt lengri að meðaltali en lög kveða á um. Það hefur þá versnað frá því að ég gegndi embætti umhverfisráðherra.