139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

staðfesting samnings milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir á markalínum.

679. mál
[16:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég er viss um að það gleður hæstv. forseta jafnmikið og það gleður mig og ýmsa hv. þingmenn sem eru í þessum sal að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að afgreiða það merka mál sem hér liggur undir í umræðunni því að það varðar mikla framtíðarhagsmuni Íslands á sviði olíu- og gasvinnslu á norðausturhorninu.

Málið felur í sér ósk af hálfu ríkisstjórnarinnar um heimild frá Alþingi til að staðfesta samning sem gerður var milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur. Þessi samningur var gerður 3. nóvember árið 2008. Þetta er rammasamningur um svokallaða einingarnýtingu kolvetnisauðlinda sem er að finna beggja vegna landgrunns Íslands og Noregs. Hann felur í sér það sem kalla má meginreglur um einingarnýtingu, en með því hugtaki er átt við að liggi viðkomandi auðlind yfir markalínuna milli Noregs og Íslands er hún nýtt sem ein eining samkvæmt samkomulagi þessara tveggja aðila eða þeirra aðila sem að málinu koma. Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar olíu eða gasauðlind nær yfir á landgrunn beggja landanna, gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar milli landanna og um nýtingu hennar sem heildar eða einingar.

Þegar Ísland og Noregur gerðu með sér samkomulag, frægan samning, um fiskveiði- og landgrunnsmál 28. maí 1980 var 200 sjómílna efnahagslögsaga Íslands viðurkennd, en fjarlægðin milli Íslands og Jan Mayen er hins vegar 292 sjómílur. Með samkomulagi landanna um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen, sem gert var 22. október 1981, var gerður lítt ómerkari samningur þar sem kveðið var á um að mörk landgrunnsins á svæðinu skyldu vera hin sömu og mörk efnahagslögsögu þeirra. Þá var jafnframt afmarkað sameiginlegt nýtingarsvæði og á Ísland rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á þeim hluta svæðisins sem liggur norðan markalínu landgrunnsins. Noregur á hins vegar rétt á 25% þátttöku í olíustarfsemi á þeim hluta svæðisins sem liggur sunnan.

Í 8. gr. þessa merka samkomulags frá 1981 er að finna ákvæði sem segir:

„Finnist olíuefni á svæði sem liggur báðum megin markalínu efnahagslögsögu landanna eða sé það allt sunnan markalínunnar en teygist út yfir þau hnit sem nefnd eru í 2. gr., [þ.e. hnit hins sameiginlega nýtingarsvæðis], skulu venjulegar meginreglur um einingarnýtingu auðlinda“, sem ég skýrði fyrr í framsögunni, „gilda um skiptingu og nýtingu fundarins. Aðilar skulu semja um nánari reglur sem gilda eiga í slíkum tilvikum. Finnist olíuefni á svæði sem allt liggur norðan markalínu, en teygist út yfir þau hnit sem nefnd eru í 2. gr., skal það allt teljast liggja innan hnitanna.“

Með samningnum um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur er kveðið á um umræddar meginreglur um nýtingu auðlinda og settar nánari reglur. Reglurnar eru almennt sambærilegar við ákvæði annarra milliríkjasamninga á þessu sviði en taka sérstakt tillit til hins sameiginlega nýtingarsvæðis, þar á meðal þeirra sérstöku réttinda sem Ísland nýtur þar umfram Noreg samkvæmt hinu góða samkomulagi frá 1981. Reglurnar gilda ekki aðeins um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Jan Mayen, heldur líka um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Noregs í heild.

Samhliða undirritun samningsins um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur var undirrituð samþykkt fundargerð þar sem nánar var kveðið á um þennan 25% þátttökurétt Íslands og Noregs í olíustarfsemi á hluta hvors annars af landgrunninu á hinu sameiginlega nýtingarsvæði milli Íslands og Jan Mayen samkvæmt samkomulaginu frá 1981. Hvort tveggja, samningurinn og sameiginlega fundargerðin, er forsenda þess að unnt sé að veita leyfi til leitar og vinnslu á kolvetnisauðlindum á Drekasvæðinu og íslenska landgrunninu, en það svæði nær, eins og hv. þingmenn vita, norður til hins íslenska hluta hins sameiginlega nýtingarsvæðis milli Íslands og Jan Mayen.

Herra forseti. Ég legg til að þegar þessari umræðu sleppir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.