139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2011.

680. mál
[16:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ríkisstjórn Íslands æskir heimildar hins háa Alþingis til þess að staðfesta samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári en þeir voru gerðir í London 21. október 2010 síðastliðinn. Hér er í fyrsta lagi um að ræða sameiginlega bókun milli Evrópusambandsins, Færeyja, Íslands, Noregs og Rússlands um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á yfirstandandi ári.

Í öðru lagi samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2011 og í þriðja lagi samkomulag milli Íslands og Rússlands um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands.

Á fundi strandríkjanna Íslands, Færeyja, Noregs, Rússlands, auk Evrópusambandsins, sem haldinn var í október síðastliðnum, náðist samkomulag um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þessu ári. Í samræmi við ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, og fyrri ákvörðun aðila um nýtingarstefnu til lengri tíma var heildaraflamark ákveðið 988 þús. lestir. Eins og menn vita sem fylgjast með þessum veiðum er hér um verulega lækkun að ræða frá árinu 2010 en þá var, eins og margir áhugamenn um sjávarútveg í þessum sal vita, heildaraflamarkið 1.483 þús. lestir.

Veiðiheimildir þjóðanna skiptast í sömu hlutföllum og verið hefur allt frá árinu 2007. Samkvæmt því verða þær á þessu ári með svofelldum hætti:

Ísland fær í sinn hlut 143.359 lestir, Færeyingar mega veiða 50.981 lest. Norðmenn geta aflað 602.680 lesta, Rússland fær leyfi til að fanga 126.661 lest. Evrópusambandið rekur lestina og fær miklu minna en hinir, einungis 64.319 lestir.

Samhliða hinni fimmhliða sameiginlegu bókun voru gerðir tvíhliða samningar á milli Íslands og Noregs og milli Íslands og Rússlands um heimildir til síldveiða í lögsögu aðila á þessu ári. Í sérstökum samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á yfirstandandi ári er kveðið á um að skipum hvors aðila verði heimilt að veiða allan sinn kvóta í norsk-íslenskri síld í lögsögu hins. Samhliða þingsályktunartillögu þessari er lögð fram tillaga um staðfestingu þess samnings.

Með því að semja með þessum hætti um aflaheimildir innan íslensku efnahagslögsögunnar eru lagðar kvaðir á íslenskt land og þess vegna þarf samkvæmt stjórnarskránni að leita sérstakrar heimildar fyrir þessum samningi þótt samningur sem byggir á sömu forsendum hafi verið gerður allar götur frá því árið 2007.

Ég legg til, herra forseti, að þegar umræðunni er lokið verði tillögu um síldveiðar vísað til hv. utanríkismálanefndar.