139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Eins og ég sagði í upphafi andsvars við hæstv. ráðherra áðan tel ég þetta þarfa umræðu, það er fínt að þessi mál séu rædd og mjög mikilvægt. Ég tel markmiðið sem slíkt gott. Það felst í því að þetta sé tekið til umræðu og umfjöllunar og að þekking okkar Íslendinga á okkar eigin öryggis- og varnarþörfum sé byggð upp hér innan lands. Ég er mjög hlynnt því.

Ég er hins vegar ekki sammála öllum þeim fullyrðingum sem fram koma í tillögunni og mun við vinnu þingsins í framhaldinu vonandi hafa tækifæri til að koma þeim betur á framfæri en ég get gert hér í 10 mínútna ræðu. Það er eitt atriði sérstaklega eða tvö sem ég vildi ræða.

Það er mikið lagt upp úr því að þetta sé þjóðaröryggisstefna sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli herleysis. Ég held að við Íslendingar séum öll sammála því að við erum herlaus þjóð og að með öryggis- og varnarmál okkar fari með öðrum hætti en að við skipum okkar fólki í her. Við erum fámenn og slíkur her mundi ekki vinna marga bardaga, held ég. Þess vegna þurfum við að vera í góðu samstarfi á alþjóðavettvangi og þess vegna hefði ég talið algjörlega eðlilegt að vera okkar í og aðild að Atlantshafsbandalaginu yrði tekin út fyrir sviga og það yrði ekki til umræðu að fara þar út. Þess vegna var ég ákaflega ánægð að hæstv. utanríkisráðherra lýsti þeirri skoðun sinni að við ættum að vera þar. Ég heiti honum stuðningi mínum í að tala fyrir því sjónarmiði, en eins og ég sagði áðan varð ég örlítið hugsi þegar ég sá yfirlýsingar hæstv. utanríkisráðherra í blöðunum í dag.

Það er þriðji punkturinn í rökstuðningnum fyrir þessari tillögu í greinargerðinni. Þar er rakið í sex liðum af hverju það er mikilvægt að endurskoða þetta. Í fimmta punktinum segir, með leyfi forseta:

„Í fimmta lagi hefur öryggisumhverfi Íslands gjörbreyst frá því sem var á tímum kalda stríðsins. Gagnkvæmur vilji stórveldanna, jafnt sem smærra þjóða, til að draga úr spennu í samskiptum þjóða hefur leitt til mikilla breytinga, m.a. í okkar heimshluta. Það hefur leitt til þess að verulega hefur dregið úr hernaðarumsvifum á norðurhveli jarðar, m.a. í nágrenni Íslands.“

Þetta tel ég ranga fullyrðingu. Ég tel mjög hættulegt, og við hæstv. utanríkisráðherra ræddum þetta svo sem áður þegar þingsályktunartillaga hans um norðurslóðir var hér til umræðu, og óábyrgt að setja svona í greinargerð með tillögu. Maður þarf ekki annað en að skoða fréttir — og nú á síðustu dögum hefur m.a.s. birst frétt frá því í mars, sem ég hef væntanlega skilið eftir á borðinu hjá mér, þar sem sérstaklega er talað um nýja uppbyggingu Rússa á hernaðarsviðinu í norðurskautinu.

Ég er hér til að mynda með skýrslu frá kanadísku varnar- og utanríkismálastofnuninni frá því í mars 2010. Þar er farið vel yfir það að þó að allir gefi það út að hér sé ekki um neina uppbyggingu að ræða og allir að stuðla að friði og stöðugleika — og ég efast ekkert um að það sé markmiðið — segir í þessari skýrslu, ég fæ að segja þetta fyrst á ensku og svo skal ég þýða það, með leyfi forseta:

„The Arctic states may be talking cooperation, but they are preparing for conflict.“

Það má þýða svona:

„Norðurskautsríkin eru kannski að tala um samvinnu, en þau eru öll að búa sig undir átök.“

Það er nákvæmlega það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum og við getum nefnt fjölmörg dæmi því til stuðnings.

Ég ætla ekki að endurtaka alla ræðu mína frá því fyrr í vetur þegar ég fór sérstaklega yfir það hvað t.d. Rússarnir hafa gert með flugi hingað til lands og til Noregs og Bretlands. Bandaríkjamenn eru að uppfæra ratsjárkerfi sín á Thule í Grænlandi. Norðmenn eru að færa bækistöðvar sínar norður á bóginn. Danir eru búnir að sameina norðurskautsherstöðina sína sem var áður sín hvor fyrir Grænland og Færeyjar og það eru þeir að gera til að vera markvissari í þessum efnum.

Öll þessi ríki eru með einum eða öðrum hætti að byggja upp viðbúnað á norðurskautinu. Það er ekkert endilega viðbúnaður til að bregðast við mengunarslysum eða ef þarna yrði um sjóslys að ræða þótt það gætu orðið samlegðaráhrif í því og allir mundu væntanlega koma þar til bjargar. En það er ekki hægt að líta fram hjá þessu og þess vegna finnst mér þessi fullyrðing vera röng.

Það er mikið vísað í skýrslu áhættumatsnefndarinnar frá 2009 sem, eins og segir hér, komst að þeirri niðurstöðu að engar vísbendingar væru um að hernaðarógn mundi steðja að Íslandi í náinni framtíð. Ég talaði um það á þeim tíma að ég væri þessu ósammála vegna þess að mér finnst þetta vera frekar „naív“ niðurstaða. Það er ekki hægt að halda þessu fram svona með það að markmiði að við búum okkur þá ekki undir það sem gæti komið fyrir. Við kaupum okkur tryggingar til að bregðast við ófyrirsjáanlegum atvikum. Jafnvel þótt við ætlum ekki neinum að brjótast inn hjá okkur komum við okkur upp þjófavarnarkerfi. Ég tel að við þurfum að taka þessi mál föstum tökum. Við þurfum að sjá hvað er raunverulega að gerast í kringum okkur. Það er ekki bara verið að byggja upp borgaralegar stofnanir og borgaralegar varnir gegn þeirri alþjóðlegu vá sem er nefnd í skjalinu og við erum sammála um að þurfi að bregðast við, heldur á sér líka stað hernaðarleg uppbygging og við verðum að fara út í svona þjóðaröryggisspekúlasjónir með opin augu fyrir því og verðum þá að gefa okkur það að við þurfum að bregðast við þeim líka.

Þess vegna varð mér dálítil spurn hérna áðan þegar ég var að lesa þetta. Mér fannst þetta ekki skýrt í tillögunni, mér fannst meiri áhersla vera á verkefnið sem ég hafði haldið að væri innan ríkisstjórnarinnar búið að koma fyrir hjá öðrum ráðherra en hæstv. utanríkisráðherra. En það er svo sem ekki fyrir nokkurn mann að skilja verkaskiptinguna þar innan borðs, og þeirri vinnu er svo sem ekki lokið.

Hér er líka nefnt sem ein breyting sem orðið hefur, og ástæða þess að við þurfum að fara yfir þetta, að grannríkjasamningar við Noreg, Danmörku, Bretland og Kanada um öryggissamstarf á friðartímum hafi breikkað grundvöll íslenskra öryggismála. Þar er vísað sérstaklega í niðurstöður Stoltenberg-skýrslunnar frá 2009 þar sem lagt er til að Norðurlöndin samþykki sameiginlega samstöðuyfirlýsingu. Stoltenberg-skýrslan er ágæt, en hún er algjörlega óskuldbindandi. Ég verð að segja það að ef eitthvað kæmi upp á mundi ég ekki treysta því, þó að það væri vilji fyrir hendi, að þarna væri ekki til staðar það afl sem þyrfti til að koma okkur hér til hjálpar.

Annað, og nú líður tíminn mjög hratt, sem hér er nefnt er samstarfið við Evrópusambandið. Það er talað sérstaklega um að ef íslenska þjóðin samþykkti aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslunni mundi aðild að Evrópusambandinu skapa nýja fleti fyrir samstarfið í öryggismálum. Ég bendi á að þessi nefnd á að skila tillögum eigi síðar en í júní 2012 (Forseti hringir.) og ég leyfi mér að fullyrða þar sem ég stend hér að þjóðin verður ekki búin að samþykkja aðildarsamning að Evrópusambandinu í júní 2012.