139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:40]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að minna mig á skýrsluna sem ég skrifaði. (Utanrrh.: Hún liggur á borðinu hjá mér.) Það var fallega gert.

Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra að því leytinu til að margs konar uppbygging á sér stað á þessum slóðum. Ríkin sem þarna um ræðir eru að byggja upp margvíslega getu til auðlindanýtingar, björgunar og leitar. Það vakir fyrir öllum, tel ég, að eiga betra og nánara samstarf um þessi mál í framtíðinni vegna þess að ég held að allir geri sér grein fyrir því að eitt ríki muni aldrei geta bjargað skipi eitt og sér. Eitt ríki mun ekki geta unnið á olíuslysi sem þarna kynni að verða, eitt ríki getur ekki staðið í þeim stórræðum eitt og sér. Þess vegna lagði ég það einmitt til í fyrrnefndri skýrslu og svaraði þeirri spurningu sem titill skýrslunnar bar með sér, hvort það væri hlutverk fyrir NATO á norðurslóðum. Ég tel svo vera, einmitt vegna þess að þar er um að ræða aðildarríki sem eru einnig norðurskautsríki, sem hafa yfir að búa mikilli getu og miklum viðbúnaði til að bregðast við ýmsum þeim þáttum sem þarna er um að ræða.

Hins vegar megum við ekki loka augunum fyrir því að þetta er ekki bara þessi uppbygging. Það er líka það sem hæstv. fjármálaráðherra mundi væntanlega kalla hernaðarbrölt. Það eru ísbrjótar, það eru herskip sem eru ekki þarna bara til að skoða ísbirni heldur til þess að æfa. Það er flug ýmissa herja þarna í kringum og það eru heræfingar á öllum þessum slóðum sem við megum ekki loka augunum fyrir. Alls staðar þar sem ég hef komið til að tala um þessi mál og hlusta loka menn ekki augunum fyrir þessu.

Ég bið hæstv. utanríkisráðherra að opna augun fyrir því (Forseti hringir.) að jafnvel þótt enginn sé með þá fyrirætlan að fara í víðtæk átök á sér stað uppbygging. Við megum ekki loka augunum (Forseti hringir.) fyrir því.