139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:45]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek algjörlega undir það að skýrslan umrædda hafi verið hófstillt og tel að þessi þingmaður sem hér stendur sé venjulega mjög hófstilltur þannig að það kemur svo sem ekki á óvart að hæstv. utanríkisráðherra hafi komist að þessari niðurstöðu. (Utanrrh.: Ég er sammála því.) Það breytir því samt ekki að í skýrslu minni fór ég mjög vandlega yfir það að jafnvel þótt sérfræðingar og ýmsar ríkisstjórnir séu sammála um það að norðurskautið eigi að vera friðsamlegt svæði á sér stað þarna uppbygging sem við getum ekki litið fram hjá.

Ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra hafi hnykkt á því og ítreka aftur það sem fram kom hjá kanadísku varnar- og utanríkismálastofnuninni í mars 2010 þar sem sagt er að jafnvel þótt þessi ríki séu að tala um samvinnu eru þau að búa sig undir átök. Það er sú staðreynd sem ég vek athygli á. Þess vegna tel ég að sú fullyrðing sem kemur fram í ályktun hæstv. utanríkisráðherra sem segir að verulega hafi dregið úr hernaðarumsvifum á norðurhveli jarðar, m.a. í nágrenni Íslands, sé röng, það sé beinlínis rangt að fara af stað með vinnu við stefnu um þjóðaröryggi Íslands með lokuð augu fyrir þessari staðreynd. Það er það sem ég er að benda á og vona að það verði tekið til athugunar í vinnu þingnefndarinnar sem á að fjalla um þetta. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra var hérna við upphaf ræðu minnar en ég fagnaði því að þetta væri komið til umræðu. Við getum haft skoðanir á einstökum efnisatriðum, en ég fagna því að það sé komið með umræðu um öryggis- og varnarmál inn á þingið vegna þess að mér finnst stórlega skorta á það og að þetta sé nokkuð sem við tölum aldrei (Forseti hringir.) nægilega mikið um.