139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi eitthvað ruglast á ræðum því að ég tók mér ekki í munn orðið „hernaðarbrölt“ en það gerði hins vegar hæstv. utanríkisráðherra (Utanrrh.: Það var Ragnheiður Elín.) og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir.

Varðandi fyrirspurn hv. þingmanns höfum við auðvitað rætt það hér í þingsalnum sérstaklega, og þarf ekki að fara yfir það. Það er ekki tilefni eða ekki efni þessarar þingsályktunartillögu og þessa dagskrármáls sérstaklega, en við höfum sem sagt lýst því yfir að við á vettvangi ríkisstjórnarinnar, okkar flokkur og í okkar þingflokki, vildum taka undir ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að koma á loftbanni eða flugbanni í Líbíu og að vernda líf almennra borgara. Eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, formanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, höfum við ekki stutt það að Atlantshafsbandalagið tæki að sér þetta hlutverk sérstaklega og mundum ekki gera það og gerum það ekki.