139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

723. mál
[17:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði nú nokkuð ítarlega á ræðuna en vel má vera að mér hafi sést yfir eitthvað. Mér heyrðist hv. þingmaður segja „hernaðarbrölt“ en vel má vera að hann hafi sagt „hernaðarhyggja“ eða eitthvað slíkt, en einhvers staðar kom orðið „hernaður“ fyrir í ræðu hans.

En þetta mál er enn á dagskrá. NATO er með aðgerðir í Líbíu, verndar borgara fyrir árásum Gaddafís, sem ræðst með þungavopnum á saklausa borgara; og ég styð aðgerðir NATO í sjálfu sér. En mér þykir afstaða Vinstri grænna undarleg miðað við ræður hv. þingmanns og flokksmanna hans í gegnum tíðina, sérstaklega varðandi innrásina í Írak, þar sem að mínu mati var verri einræðisherra en í Líbíu. Þó að kannski sé erfitt að leggja mælikvarða á það hver er meiri einræðisherra eða meiri harðstjóri en annar tel ég að ástandið í Írak hafi verið miklu verra.

Eins og hv. þingmenn Vinstri grænna hafa í gegnum tíðina bent á þá olli viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna gífurlegum hörmungum og dauðsföllum og sérstaklega lítilla barna í Írak; það réttlætti að mínu mati innrásina. Ég hefði annaðhvort viljað hætta við innflutningsbannið á þeim tíma eða grípa inn í. Því var ekki til að dreifa í Líbíu þar sem ekki var viðskiptabann frá Sameinuðu þjóðunum þar; Gaddafí hefur ekkert óhlýðnast neinum slíkum aðgerðum og hefur heldur ekki ráðist inn í önnur ríki. Mér finnst því saklausara að hafa ráðist inn í Írak en inn í Líbíu þó að erfitt sé að meta það hverju sinni.