139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

áfengislög.

705. mál
[18:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þau lög sem við ræðum um breytingu á voru sett 1998. Mér er ekki kunnugt um hvenær þetta auglýsingabann var sett á fyrst en það sem ég var eiginlega að spyrja um var hvort á því ári sem það var fyrst sett á hafi orðið mikil minnkun í áfengisdrykkju sem afleiðing af því að bannað var að auglýsa áfengi.

Varðandi hitt atriðið, um netið, það getur orðið dálítið erfitt um vik þegar auglýst er kannski í landi sem ekki bannar auglýsingar og svo koma þær með viðkomandi heimasíðu til Íslands. Ég er þá að tala um facebook og annað slíkt þar sem hægt væri að setja slíkar auglýsingar inn og jafnvel stíla þær inn á vissa aldurshópa og kyn með þeim upplýsingum sem þar eru til. Ég var eiginlega meira að vara við því sem gæti gerst.

Ég vildi gjarnan fá svar við hinni spurningunni, hvort svona auglýsingabann hafi eitthvað að segja varðandi neysluna.