139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

áfengislög.

705. mál
[18:11]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fá að leggja nokkur orð inn í umræðu um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, með síðari breytingum, sem snúa að takmörkun heimilda til auglýsinga.

Ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið fram, ég fagna hverju því skrefi sem við tökum til að koma í veg fyrir að þessari vöru sé komið með markvissum hætti, þ.e. með auglýsingum og markaðssetningu, á framfæri og sérstaklega þegar verið er að höfða til ungs fólks, að markaðssetja mismunandi tegundir og vöru sem höfðar til ungs fólks. Auglýsingabann er í gildi en mörgum hefur sviðið hvernig farið hefur verið fram hjá því auglýsingabanni bæði í blöðum og ljósvakamiðlum undir því yfirskyni að verið sé að auglýsa léttöl, óáfengan bjór eða pilsner, og með því að koma fyrir vöruheitinu léttöl með örsmáu letri einhvers staðar úti í horni sem er ekki nema fyrir velsjáandi að sjá að farið er í kringum lögin því greinilega er um áfengisauglýsingar að ræða enda er sama vörumerki á umbúðunum.

Hér er verið að herða þá umgjörð sem við höfum og því fagna ég. Ég tel að í sambandi við þetta sé mikilvægt að horfa sérstaklega til markaðssetningar á nýjum drykkjum eða nýrri vöru sem höfðar sérstaklega til ungs fólks og markaðssetningar á því sem mætti heita áfengir gosdrykkir. Margt ungt fólk hefur ekki litið á þessa nýju drykki sem áfengi heldur eingöngu gos með smááfengi í en ekki áfenga drykki. Markaðssetningin hefur verið lúmsk og beitt er ýmsum brögðum.

Hér er lagt til að Neytendastofa hafi eftirlit með auglýsingum og tilkynningarskyldu og fylgist með brotum og hafi afl til að bregðast við. Það er sama hvort það er lögreglan eða Neytendastofa, ég tel a mikilvægt að sá aðili sem ber ábyrgð á eftirlitinu hafi vald til að geta brugðist við og beitt sektum ef brot eru framin.

Ég ætla að leggja til, hæstv. forseti, að leitað verði umsagnar heilbrigðisnefndar um þetta frumvarp. Því er vísað til allsherjarnefndar sem eðlilegt er en ég óska eftir því að heilbrigðisnefnd fái að veita umsögn um frumvarpið.