139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

áfengislög.

705. mál
[18:15]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þuríði Backman. Mér finnst mjög eðlilegt að málið fari til skoðunar og umsagnar í heilbrigðisnefnd þingsins. Við erum að tala um heilbrigðismál þegar þetta frumvarp er annars vegar.

Ég vil árétta það sem ég sagði áðan að með þessum lögum ætlum við að sjá til þess að lög sem eru við lýði í landinu verði virt, þ.e. bann við áfengisauglýsingum. Áfengisauglýsingar eru bannaðar á Íslandi en menn hafa fundið leiðir til að komast hjá því banni og það er upp í þau göt sem við erum að stoppa. Hugsunin að baki er sú að kaupandi auglýsingarinnar sé ábyrgur og hann verði gerður ábyrgur ef hann brýtur þessi lög. Ef ekki næst í hann munu yfirvöld snúa sér til miðilsins. Þetta er tilraun til að láta lög sem þegar eru í gildi í landinu verða virt.