139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

725. mál
[18:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hæstv. ráðherra þegar hann mælti fyrir þessu frumvarpi að hann sagði að einn tilgangur frumvarpsins væri að tryggja gæði og framþróun. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Er einhverju ábótavant í þeim málum í dag?

Ég er líka dálítið hugsi yfir þessu, virðulegi forseti, vegna þess að hér er verið að setja lög nánast utan um eitt fyrirtæki sem hefur starfað í 25 ár og hefur byggt upp internetið hér og það umhverfi sem það er í. Í frumvarpinu er einungis lagt til að fyrirtækið fái fimm ára leyfi til viðbótar. Síðan er í raun og veru ekki sjálfgefið að fyrirtækið fái endurnýjun á starfsleyfinu þó svo að það hafi kannski ekki brotið neitt í lögunum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji það forsvaranlegt og hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að þarna sé í raun og veru verið að ganga á atvinnurétt þessa fyrirtækis. Eins og þetta lítur út fyrir mér mætti ætla að það væri nánast verið að undirbúa þjóðnýtingu á fyrirtækinu, þ.e. það er verið að gefa því leyfi til fimm ára með engum vilyrðum um endurnýjun þó svo að það fari eftir lögum og hafi ekki brotið neitt af sér í starfseminni. Hver er í raun og veru hugsunin með þessu? Hver er ástæðan fyrir því að það fær einungis fimm ára starfsleyfi, sem mér finnst algerlega óskiljanlegt? Af hverju er þetta starfsleyfi ekki miklu lengra sem væri eðlilegt miðað við þá fjárfestingu og annað sem slík fyrirtæki þurfa að fara í? Hvað veldur því að hæstv. ráðherra leggur til að starfsleyfið gildi einungis til fimm ára?