139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Margt í því er til mikilla bóta og ég mun fara yfir það í stuttri ræðu á eftir.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi komið til tals, eins og áður hefur verið rætt í sölum þingsins, að banna hugsanlega sveitarfélögum að taka erlend lán. Ég sé það ekki í fljótu bragði í þessum mikla lagabálki, finn þess ekki stað, en mig langar til að spyrja hvort það hafi komið til tals í meðferð frumvarpsins.

Hæstv. ráðherra kom líka inn á samráð eins og haft var við Samtök ísl. sveitarfélaga sem ég hef eftir bestu upplýsingum að hafi verið mjög vandað. Hann kom inn á í ræðu sinni að drögin á landsþingi sveitarfélaga hefðu verið tekin til umfjöllunar og tekið hefði verið tillit til þeirra athugasemda sem þar komu fram. Því vil ég spyrja hæstv ráðherra: Er eitthvað sem stendur út af af þeim athugasemdum sem þar komu fram? Ef svo er vænti ég þess að hæstv. ráðherra komi því á framfæri í andsvari.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um þessar fjármálareglur, sem ég tel vera mjög mikilvægt að verði settar í frumvarpið, miðað við það 150% þak sem þar er sett. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti upplýst mig um hvað mörg sveitarfélög séu fyrir ofan þetta viðmið og ef einhver eru hvað hann telji það taka langan tíma fyrir viðkomandi sveitarfélögin að ná aftur að vera innan rammans sem áætlað er að miðist við þetta 150% þak.