139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:26]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar að spyrja spurninga sem tengjast annars vegar 11. gr. og síðan 108. gr. þar sem talað er um aukið lýðræði og nýja nálgun og verið er að fjölga sveitarstjórnarmönnum. Þegar við tölum um 108. gr., um frumkvæði íbúa til að óska eftir íbúakosningu, er talað um að 20% af þeim sem hafa kosningarrétt í hverju sveitarfélagi geti kallað eftir íbúakosningu um mál. Ráðherrann sagði í framsöguerindi sínu um íbúakosningarnar í 177. gr. að þar væru mikilvæg málefni.

Í sveitarfélögum sýnist sitt hverjum um hvað eru mikilvæg málefni. Oftar en ekki verða stærstu málin í hverju sveitarfélagi háð merktri pólitík og merktur ágreiningur er oftar en ekki skipulagsmál. Mig langar að spyrja vegna þess að skipulagsmálin eiga jafnt við í stórum sem smáum sveitarfélögum hvort komið hafi til tals að prósentuhlutfallið sem sett er í 108. gr. gæti verið misjafnt eftir því hversu stór sveitarfélögin eru. Í mjög fámennum sveitarfélögum geta 20% verið fáir og þeir sömu aðilar gætu þá hugsanlega ítrekað knúið fram atkvæðagreiðslu ef þeir óskuðu þess. Hefur einhver umræða farið fram um að fjöldi þeirra sem kallar eftir atkvæðagreiðslu um tiltekin mál sé breytilegur miðað við stærð sveitarfélaganna? Þetta er fyrsta spurning til hæstv. ráðherra og ég vænti svars.