139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:28]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi skilgreiningu á mikilvægu málefni þá erum við að tala um 10% regluna, að 10% íbúa geti krafist borgarafundar. Það er alveg rétt að það er álitamál hvernig á að skilgreina slíkt en ég held að veruleikinn muni gera það sjálfur. Ef tíundi hluti íbúa krefst borgarafundar felur það í sér skilgreininguna í sjálfu sér.

Varðandi 20% regluna þá eru þetta alveg hárréttar ábendingar hjá hv. þingmanni. Þetta atriði var rætt í meðferð málsins eða við smíði frumvarpsins en niðurstaðan varð sú að horfa til þess að hafa þá föstu reglu að fimmtungur kjósenda gæti krafist atkvæðagreiðslu. Síðan er það náttúrlega meiri hlutinn sem á endanum ræður niðurstöðunni þótt þessi minni hluti geti óskað eftir atkvæðagreiðslunni.

Það má geta þess að í drögum að frumvarpinu var að finna klásúlu þess efnis að sveitarstjórnirnar gætu jafnvel sett því skorður að atkvæðagreiðslur af þessu tagi næðu fram að ganga. Mér þótti það ekki eðlilegt og vildi ekki hafa það ákvæði í lögunum. Ég tel mikilvægt að efla beint lýðræði og ef fimmtungur kjósenda óskar eftir kosningu þá á hún að fara fram. Við skulum ekki gleyma því að á endanum er það meirihlutaviljinn sem ræður þótt að minna hlutfall geti krafist þess að atkvæðagreiðsla fari fram.