139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:31]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er málefni sem stundum hefur komið upp og þá er spurning um að taka afstöðu. Með hvorum tekur maður afstöðuna, atvinnurekandanum eða starfsmanninum? Ég held að það sé mjög mikilvægt að standa vörð um réttindi starfsmannsins. Reyndar hefur mér stundum fundist óþarflega langt gengið í því að sverta pólitíkina, að það sé eitthvað rangt og skítugt við að vera í lýðræðislegu starfi. Það er ekkert að því að einstaklingar sem eru starfandi hjá sveitarfélagi eða ríki taki þátt í stjórnmálum. Hins vegar er svo annar hlutur að upp geta komið slík mál að mönnum finnist það ekki eðlilegt vegna hagsmunaárekstra eða slíks og þeir taki þá afstöðu til málsins út frá (Forseti hringir.) góðri réttarstöðu. Það er sú réttarstaða sem við viljum styrkja með þessum lögum.