139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirgripsmikið erindi og þennan mikla lagabálk sem er örugglega að miklu leyti til bóta. Ég vil spyrja hann um greinarnar um fjármálin, af því að mér eru þau ævinlega hugleikin. Væri ekki eðlilegra í 64. gr. að segja að skuldir megi aldrei vera hærri en laust fé og bara banna sveitarfélögum að skulda, hvort sem er gengistryggt eða verðtryggt, í íslenskum krónum, að þau eigi alltaf fyrir skuldum með lausu fé?

Ég vil líka spyrja hann hvort undir 180. gr. geti t.d. falist að greiða atkvæði um fjárhagsáætlun, hvort borgarinn geti greitt atkvæði samkvæmt 180. gr. um útsvarið, hvað það yrði hátt, t.d. að segja að útsvarið verði 11% ef við förum ekki í þessar eða hinar framkvæmdirnar annars verði það 12% o.s.frv., þannig að íbúarnir geti kosið um skattprósentuna og þær framkvæmdir sem við hana tengjast?

Þetta eru eiginlega tvær spurningar, um 180. gr. og 64. gr. Hér stendur: „Örugg meðferð fjármuna“, þ.e. að óheimilt sé að fjárfesta í hagnaðarskyni nema um sé að ræða verkefni sem þeim hefur að lögum verið falið og gæta skuli ábyrgðar við fjárfestingar. Er þetta í raun ekki bann við því að taka áhættu af því að reisa orkuver til að selja orku til erlendra aðila sem felur óneitanlega í sér mikla áhættu eins og kunnugt er? Væri þá ekki eðlilegt að sveitarfélög í slíkum tilvikum mundi leigja réttinn til orkuvinnslu í samræmi við lög um auðlindir til t.d. 30 ára og sleppa við þessa áhættu?