139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Jú, það er mikið til í því sem hv. þingmaður nefnir hér og það er eitt af því sem var mikið rætt við smíði þessa frumvarps, þ.e. að skilja á milli áhættuþátta og hefðbundinna rekstrarþátta. Þarna þarf að gæta hófs og lögin eru öll á þann veg að tryggja íbúum og skattgreiðendum sem öruggast umhverfi.

Hv. þingmaður nefndi þarna tiltekna þætti, varpaði því fram hvort setja ætti bann við að sveitarfélög tækju á sig skuldir umfram laust fé, að þau yrðu að eiga fyrir skuldum sínum. Þar þætti mér of langt gengið. Það er nú þannig í uppbyggingu, hjá sveitarfélögum og öðrum aðilum, að iðulega þarf að fjárfesta fram í tímann og síðan er þetta greitt niður. Ég minnist þess úr starfi mínu hjá BSRB að ráðist var í gríðarlega uppbyggingu í Munaðarnesi og Stóru-Skógum og víðar og síðan fóru nokkur ár í að greiða þær skuldir niður eftir að búið var að skapa þessa byggð.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið úr ráðuneytinu eru mismunandi reglur við lýði ef við horfum til grannríkja okkar á meginlandi Evrópu eða á Norðurlöndunum hvað þetta snertir. Mér er sagt að við séum einhvers staðar um miðbikið hvað varðar þessa öryggisþætti þegar litið er til samanburðar hjá þessum þjóðum.