139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til sveitarstjórnarlaga. Ég vil láta í ljós ánægju mína eftir skjótan yfirlestur þessa frumvarps með hvernig til hefur tekist. Sýnt er að vinna samráðshópsins og samvinna þeirra sem að þessu koma hefur skilað sér inn í frumvarpið.

Það er tvennt sem mig langar til að velta upp. Það er staða sveitarstjórna almennt og þá sveitarstjórnarstigsins sem stjórnsýslustigs og þeirrar ábyrgðar sem í því felst. Mér hefur oft þótt skorta á gagnkvæma virðingu sveitarstjórnarstigs og ríkisvalds. Sveitarstjórnarstigið stendur ef eitthvað er nær íbúum og ætti því að vera virtara stjórnsýslustig og í mínum huga jafnhátt og ríkið. Svo er þó ekki. Ég velti fyrir mér og mig langar eiginlega að spyrja hæstv. ráðherra í þessari ræðu minni hvort umræða um tvö áþekk og jafnrétthá stjórnsýslustig, annars vegar sveitarstjórnarstigið og hins vegar ríkið, hafi yfir höfuð farið fram í þessum sveitarstjórnarlögum og hvort sjálfsforræði sveitarfélaganna ætti hugsanlega að vera ívið meira en fram kemur í lögunum og hvort það ætti þá að þróast hægt og sígandi inn í það ferli því að enn virðist halla á.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um 116. gr. þar sem verið er að tala um vanrækslu sveitarfélaga og sveitarstjórnarmanna. Ef um vanrækslu sveitarfélaga er að ræða er hægt að beita þau dagsektum sem síðan renna í jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Gera má aðför án undangengins dóms til fullnustu sekta. Þetta getur ríkið gert gagnvart sveitarfélögum. Nú er jafnljóst að ríkið hefur sett lög um að ríkisstofnanir eigi að framkvæma og sinna ákveðnum verkefnum sem þær gera svo ekki og fullnusta því ekki lögin sem slík. En því er hvergi til að dreifa, að því er ég tel, að á sama hátt sé hægt að beita stofnunum ríkisins dagsektum vegna vanrækslu og hér er heimilt gagnvart sveitarfélögum. Þegar maður horfir á stjórnsýslustigin, sem ég kýs að líta á sem jöfn og vil gera jafnari að hlut en nú eru, þá veltir maður m.a. fyrir sér þessum þáttum.

Í þriðja lagi, frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu nú seint að kvöldi en ég fagna 130. gr. og því að hún sé nú komin í sveitarstjórnarlög. Hún tekur til kostnaðarmats. En á þessu þingi fjöllum við um frumvörp til laga sem hugsanlega hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir sveitarfélög án þess að fyrir liggi kostnaðarmat vegna þeirrar stefnumótandi afstöðu sem verið er að taka af hálfu löggjafans með setningu laga. Maður veltir fyrir sér, verði þau frumvörp að lögum á undan því sem við ræðum nú, gildir þá 130. gr. eða gildir hún ekki? Sjaldnast ræðum við um afturvirkni laga og ef réttindi sem frumvörpin gera ráð fyrir verða að lögum þá þarf ákveðnar skyldur til að uppfylla þau réttindi og það kann að kalla á aukinn kostnað, en lög eru aldrei afturvirk. Hvernig fer þá fyrir þeim frumvörpum sem við fjöllum þegar um í þinginu? Verða þau að lögum áður en þetta ágæta frumvarp verður að lögum? Eftir því sem ég best veit mun 130. gr. þá ekki ná til þeirra.

Þetta hefur kannski verið rætt og hæstv. innanríkisráðherra getur sjálfsagt svarað því. Það er sem sagt þetta þrennt: Stjórnsýslueftirlitið með sveitarfélögum af hálfu ríkisins, kostnaðarmat og síðan sérstaða sveitarstjórna almennt og sveitarfélaga og að þau séu sett skör lægra sem stjórnsýslustig en ríkið. Ég vænti þess að fá að heyra skoðanir hæstv. innanríkisráðherra á því.