139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir. Ég ætla að koma með nærtækt dæmi fyrir hæstv. innanríkisráðherra. Í menntamálanefnd er verið að ræða mjög mikið og stórt mál sem er íslensk tunga og íslenskt táknmál. Það er ljóst að ef við ætlum okkur að standa við það sem stendur í frumvarpinu, að gera íslenskt táknmál jafnrétthátt og íslensku, mun það hafa í för með sér kostnað á leikskólastigi og grunnskólastigi fyrir sveitarfélögin og á framhaldsskólastigi og háskólastigi fyrir ríkið. Í frumvarpinu reynum við ekki að kostnaðargreina fyrir hönd sveitarfélaganna hver kostnaður þeirra verður.

Í raun og veru segjum við að hér sé verið að leggja til tiltekin réttindi. En til þess að einstaklingar geti öðlast þessi réttindi þarf einhver að vera í stakk búinn til að stuðla að því og í tilfelli yngstu aldurshópanna í það minnsta eru það sveitarfélögin. En það liggur engin kostnaðargreining fyrir og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og óskað eftir því að það nái ekki fram að ganga. Þetta er mjög mikilvægt frumvarp. Það er réttarbót og algerlega skilyrt að við ljúkum vinnu við slík frumvörp. En það verður að taka tillit til þess sem sveitarfélögin segja á þessu stigi. Þess vegna velti ég fyrir mér 130. gr. af því að ég veit að það er samkomulag um að kostnaðargreina hlutina, ég þekki það frá störfum mínum í sveitarstjórnum. En nú liggur fyrir verkefni sem þetta. Við höfum ekki kostnaðargreint það en það mun kosta talsvert. Hvernig ætlum við þá að vinna (Forseti hringir.) verkið?