139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna erum við hjartanlega sammála um mikilvægi þess að fram fari ítarlegt og faglegt kostnaðarmat þegar verið er að skáka verkefnum frá ríki til sveitarfélaga eða öfugt.

Ég nefndi ártalið 2001 þegar ég vísaði í samkomulagið sem nú væri byggt á í samskiptum ríkis og sveitarfélaga varðandi þann þáttinn. Ráðuneytismenn hafa fundið ártalið 2005 þannig að ég leiðrétti það hér með. Það kann að eiga sér lengri sögulegar rætur, en alla vega hefur það verið við lýði í rúman hálfan áratug.

Það sem ég gat ekki greint í skrift minni áðan var að segja frá nokkru sem flestir hér inni þekkja, að það er ekki aðeins verið að bæta regluverkið og lagarammann um fjárhag sveitarfélaga eins og gert er í frumvarpinu heldur er ríkið að taka verulega til hjá sér og hefur verið að gera á liðnum missirum. Mér er sagt að í fjárlaganefnd sé nú í vinnslu frumvarp um fjárreiður ríkisins þar sem verið er að koma þessum málum til betri vegar. Að því hefur að sjálfsögðu verið unnið í fjármálaráðuneytinu á liðnum missirum þannig að við erum að stíga mjög jákvæð skref inn í framtíðina hvað það snertir. Við erum að sýna meiri festu í allri lagaumgerð og regluverki um fjármál hins opinbera.