139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Pétur H. Blöndal erum komin langt út fyrir umræðuefnið sem varðar lög um sveitarstjórnir en ég tek heils hugar undir með honum. Að sjálfsögðu á að haga skattlagningu þannig að hún skapi sem minnst flækjustig fyrir þá sem eiga að greiða skattinn. Þar vegast á sjónarmiðin um tekjuöflun ríkissjóðs, sanngirni og jöfnun í skattlagningu og áhrif á ákveðna hegðun eins og ef menn vilja ná fram ákveðnum þáttum í umhverfismálum með skattlagningu.

Við þekkjum þetta bæði, ég og hv. þingmaður, úr efnahags- og skattanefnd. Við höfum mikið fjallað um allra handa skattlagningu og með hvaða hætti sé eðlilegt að leggja á skatta til að baka ekki fyrirtækjum óeðlilegt flækjustig í úrvinnslu þeirra. Ég vona þó að það sé ekki víða á vinnustöðum þar sem fólk eyðir heilum vinnudegi í 631 kr. og ég geri ráð fyrir að þetta sé ýkt dæmi af hálfu hv. þingmanns.

En þó að við séum ekki samstiga í sýn okkar á skattlagningu get ég algerlega tekið undir með þingmanninum um að við þingmenn eigum að gæta að því í störfum okkar, og ég tel að við reynum það eftir fremsta megni, að tryggja að skattlagningin valdi ekki óþarfavinnuálagi í fyrirtækjum.