139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:20]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil bregðast við orðum hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur þegar hún kallaði atkvæðavægi þingmanna í Reykjavík og á landsbyggðinni mannréttindabrot. Ég hefði viljað ræða það við hv. þingmann en það er kannski ekki efni að gera það við þetta mál, frumvarp til laga um sveitarstjórnarlög. Ég held að menn verði að taka þessa umræðu miklu dýpra. Hv. þingmaður lét að liggja að hér væru nánast framin mannréttindabrot á þingmönnum Reykjavíkurkjördæmis. Það er alveg með ólíkindum að hlusta á þetta.

Mig langar að velta því upp, þar sem hún telur landsbyggðarfólk hafa miklu meira vægi í atkvæðum, að hlutirnir verði skoðaðir í víðara samhengi en svo. Hvert er til að mynda aðgengi fólks sem býr á landsbyggðinni að stjórnsýslunni til móts við íbúa á Stór-Reykjavíkursvæðinu? Það er ærið mismunandi hvort heldur sem það er að heilbrigðisþjónustu eða allri stjórnsýslu hins opinbera. Það er mjög skrýtið að taka einn þátt út úr dæminu og kalla hann mannréttindabrot.

Ég vil líka benda á að ef horft er í vesturátt eru jafnvel engir þingmenn sums staðar þar sem stjórnsýslan er vegna þess að vægi hennar er álitið það mikið. Ég tel svo vera hér líka. Það var fróðlegt að skoða skýrslu sem var unnin fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga, en ég hvet hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til að kynna sér hana, þar sem kemur fram að meira en helmingur af skatttekjum íbúanna í Vestfjarðakjördæminu gamla fer í að halda uppi stjórnsýslunni og rekstrinum í Reykjavík. Ef skilningur hv. þingmanns er sá að munurinn á atkvæðisrétti sé mannréttindabrot þá hlýtur þetta væntanlega að vera mannréttindabrot líka.

Það er eins og allir þeir þingmenn sem koma frá landsbyggðinni séu einhver sníkjudýr. Það er ekki þannig. Ég minni hv. þingmann á hvaðan gjaldeyristekjur þjóðarinnar koma. Þær koma að stærstum hluta frá landsbyggðinni. Síðan líta margir hv. þingmenn úr öllum flokkum svo á að höfuðborgin hafi ekki einu sinni þeirri skyldu að gegna að hafa flugvöll í Vatnsmýrinni, það sé bara hægt að fljúga liðinu suður til Keflavíkur og einhvern tíma seinna verði sett járnbrautarlest þó svo að flogin séu 800 sjúkraflug á ári og helmingur þeirra sé bráðatilvik.

Ég verð að biðja hv. þingmann og aðra sem eru með slíkar fullyrðingar að skoða hlutina í víðara samhengi.

Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að þó að ég hafi miklar áhyggjur af mannréttindabrotum þá hef ég ekki miklar áhyggjur af þessu. Ég get engan veginn tekið undir það með hv. þingmanni að þetta séu mannréttindabrot á þingmönnum Reykjavíkur. Ég held að það hafi verið undirstrikað um daginn þegar kosið var til stjórnlagaþings að sú hugmynd að gera landið að einu kjördæmi hafi fallið. Það er a.m.k. mín skoðun miðað við þá einstaklinga sem náðu kjöri út frá búsetu en ekki einstaklingunum sjálfum. Ég sagði það reyndar í umræðunni um það mál í haust að tillaga sumra hv. þingmanna Vinstri grænna, um að draga úr potti nöfn þeirra fulltrúa sem gæfu kost á sér, væri ekki mjög gáfuleg en eftir á að hyggja var hún ekki svo vitlaus. Það hefði betur verið gert til að jafna vægið í þeirri kosningu.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þau ummæli að kalla þetta mannréttindabrot. Mér finnst ekki gott að þurfa alltaf að verja það þegar gefið er í skyn að við séum landsbyggðarpotarar og kjördæmapotarar þegar kemur að því að verja hagsmuni landsbyggðarinnar. Ég minni á það sem var lagt fram í haust gagnvart heilbrigðisþjónustunni og náðist sem betur fer að snúa niður. Það var algjör aðför að landsbyggðinni. Ég held að það sé ágætt fyrir hv. þingmenn að hafa í huga að skatttekjurnar koma af landsbyggðinni og tekjurnar til að halda uppi stjórnsýslunni og hinum opinbera rekstri í Reykjavík koma að stærstum hluta af landsbyggðinni.