139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér hálfsvelgdist á þegar ég heyrði ræðu hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur. Ástæðan fyrir því að ég er kominn í andsvar er út af þeirri ræðu. Það kann vel að vera að ég fari á mælendaskrá í framhaldinu því að mér sýnist verða áframhald á þessari umræðu. Ástæðan er vitanlega sú að það er algerlega óásættanlegt að heyra þingmenn suðvesturhornsins, höfuðborgarsvæðisins, kvarta yfir mannréttindabrotum þegar kemur að atkvæðavægi. Ég held að hv. þingmenn ættu að huga vel að orðum hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar áðan um hvar stærsti hluti peninganna verður til og hvar hann verður svo eftir. Hann verður eftir á höfuðborgarsvæðinu.

Ef þetta er viðhorfið sem við búum við á Alþingi og kannski á suðvesturhorninu langar mig að spyrja hv. þm. Ásbjörn Óttarsson að því hvort ekki sé ráð að við leggjum fram tillögu, sem kann að vísu að stangast á við stjórnarskrá, um að fjármálaráðuneytið verði flutt á Ísafjörð, að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verði flutt í Skagafjörð o.s.frv. Það getur vel verið að við séum tilbúnir, ég og hv. þingmaður, að fórna þingmennsku okkar fyrir það að stjórnsýslan fari út á land. Mér hefur sýnst að það sé býsna mikið í hana lagt og þar séu býsna mikil völd ef málið snýst um völd.

Virðulegi forseti. Stjórnsýslan er vitanlega á höfuðborgarsvæðinu. Ráðuneytin eru þar, Alþingi er þar og þar gerast hlutirnir. Það er mjög sanngjarnt og í raun eðlilegt að mismunur sé í atkvæðavægi þegar horft er til þess að aðgangur landsmanna að upplýsingum og þjónustu er mjög misjafnt. Það má líka velta því fyrir sér hvort fjárlögin séu mannréttindabrot þar sem þau mismuna klárlega þegnum landsins.

Ég velti því einnig fyrir mér hvort hv. þm. Ásbjörn Óttarsson geti tekið undir það með mér að hugsanlega eigi að fara þá leið sem farin er í Bandaríkjunum, ef ég man rétt, að engir þingmenn séu af höfuðborgarsvæðinu, þeir komi allir utan af landi þar sem stjórnsýslan er öll á höfuðborgarsvæðinu.