139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég skynja aðdraganda stofnunar fríríkisins Norðvesturlands. Það eru tíðindi.

Ég verð að segja eins og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson að þetta er alvörumál. Ég lít það mjög alvarlegum augum ef hann telur að það sé firra að fjalla um að jafna atkvæðavægi milli landsmanna, að „einn maður, eitt atkvæði“ sé bara glórulaust bull af hálfu þeirrar sem hér stendur. Ég vil benda á að það er grundvallaratriði að hver maður hafi sama vægi í skipan hins lýðræðislega valds á Íslandi og það hafi ekkert með reikningskúnstir um hvaðan tekjur koma og hvert þær fara að gera. (Gripið fram í: Jú!)

Ég tel að sjálfsögðu og lít svo á að ég eigi að hafa hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi í störfum mínum og ég reyni það eftir fremsta megni og vona að ekki sé hægt að bera annað upp á mig.

Við búum í ríki. Reykjavík er höfuðborg þess ríkis. Þar eru innviðirnir til að skapa forsendur fyrir ýmsar atvinnugreinar sem skapa gjaldeyristekjur. Það er afskaplega óheppilegt af praktískum ástæðum að dreifa stjórnsýslunni um landið. Það er full ástæða til að horfa til þess hvert þurfum við að setja fjármuni til að stjórn ríkisins sé sem best háttað. En að fara í meting um hver gerir hvað og nota það sem röksemdafærslu gegn „einn maður, eitt atkvæði“ að einhver skapi tekjur hér og skattar renni eitthvert annað, (Forseti hringir.) ég er alfarið á móti þeirri túlkun á þessum grundvallarmannréttindum.