139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:36]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég get alveg tekið undir það með henni að það er mjög mikilvægt að menn ræði hlutina. Það sem vakti mig til umhugsunar og varð til þess að ég hélt ræðuna áðan var að misvægi atkvæðisréttar væri kallað mannréttindabrot. Ég reyndi að draga fram í ræðu minni að við yrðum að ræða málin út frá fleiri hliðum, eins og út frá aðgengi að stjórnsýslunni. Hvert er vægi stjórnsýslunnar? Ég þekki það eftir stutta setu mína á hinu háa Alþingi hversu mikil völd stjórnsýslan hefur. Hún hefur gríðarleg völd. Við sjáum það alls staðar.

Varðandi að ekki sé hægt að dreifa stjórnsýslunni frekar þá er ég ekki sammála því. Ég nefni tvær stofnanir sem koma strax upp í huga mér. Annars vegar Hafrannsóknastofnun. Af hverju getur hún ekki verið á landsbyggðinni? Öll rök mæla með því að hún sé á landsbyggðinni, það gefur alveg augaleið og ég þarf ekki að færa frekari rök fyrir því. Fiskistofa gæti til að mynda verið á landsbyggðinni. Það er ágætt að rifja það upp að þegar Fiskistofa var sett á laggirnar komu sveitarstjórnarmenn frá Hrísey og nefndu hvort ekki væri tilvalið að setja þessa ágætu stofnun þar. Þá voru svörin þau að störfin væru svo fá að það skipti engu máli fyrir Hrísey. Það vill svo til að starfsmenn þar eru miklu fleiri en íbúarnir í Hrísey í dag. Við sjáum hvernig báknið þenst út. Það eru engin rök fyrir því að við getum ekki haft einhverjar stofnanir úti á landi frekar en á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur einmitt gefist mjög vel þegar stofnanir hafa verið fluttar á landsbyggðina. Ég nefni til að mynda Fæðingarorlofssjóð og Vinnumálastofnun (Forseti hringir.) sem er með útibú á Skagaströnd og Atvinnuleysistryggingasjóð. Það eru mörg dæmi um að það sé hægt.