139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að væntanlega séu spennandi tímar fram undan. Aðeins út af því sem hv. þingmaður nefndi um flugvöllinn í Reykjavík þá greinir okkur á þar. Hv. þingmaður segir að ef þingmönnum Reykjavíkur fjölgi sé hægt að færa flugvöllinn burt og fara með hann suður til Keflavíkur; ekki hefur verið sýnt fram á aðrar lausnir. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður sagði líka að þá væri hægt að koma á lestarsamgöngum. Mér þykir þetta mjög athyglisvert og ég held að við verðum að ræða það.

Mín skoðun er sú að ef flugvöllurinn á að fara úr Vatnsmýrinni og ekki vera innan höfuðborgarsvæðisins heldur í Keflavík þá eigum við ekki að byggja nýtt háskólasjúkrahús í Reykjavík. Þá á bara að byggja það í Keflavík. Tölurnar sýna og það eru nýleg dæmi um það í fréttum að ef sjúklingar frá Akureyri sem var flogið með til Reykjavíkur hefðu ekki komist af flugvellinum inn á spítala á þeim örfáu mínútum sem skipta máli hefði þeir dáið. Þeir hefðu ekki lifað neina lestarferð af. Menn verða að ræða hlutina eins og þeir eru.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður gaf lítið út á, þ.e. hvernig menn töluðu um jöfnun atkvæðisréttar. Það sem ég benti hv. þingmanni á var að menn yrðu þá að tala um jöfnuð íbúanna á öllum öðrum sviðum, ekki bara atkvæðisréttinn. Eigum við til að mynda að taka fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum sem hafa algerlega óboðlegar vegasamgöngur? Þeir borga stórar upphæðir í ríkissjóð og þau fyrirtæki sem starfa þar. Mér finnst það ósanngjarnt og ég tel að ef jafna á atkvæðisréttinn verði líka að jafna búseturéttinn. Það er það sem ég er að benda hv. þingmanni á. Hún segir að það sé ekki boðlegur málflutningur. Ég er því algerlega ósammála. Það eru margir íbúar á landsbyggðinni sem búa ekki við sömu skilyrði og íbúar á höfuðborgarsvæðinu og það verður þá að jafna íbúaréttinn (Forseti hringir.) eins og atkvæðisréttinn ef það verður gert á annað borð.