139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er kannski rangt að lengja þessa umræðu með umræðu um atkvæðisréttinn. En áðan var sagt að það ætti að taka upp kerfið „einn maður, eitt atkvæði“ og þar sem ég var í andsvari við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson en fannst eins og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir væri í andsvari við mig þá kveikti það í mér. Það má alveg færa rök fyrir því að það eigi að vera „einn maður, eitt atkvæði“ ef menn eru tilbúnir til að jafna lífskjör að öðru leyti, frú forseti. Ég vil þá gjarnan koma því í þingtíðindin að ef þingmenn vilja ganga þá vegferð að fara út í „einn maður, eitt atkvæði“ þá geri ég það að algjöru skilyrði að jafnað verði líka króna fyrir krónu þar sem hver króna sem verður til á landsbyggðinni skili sér þangað aftur, þá fyrst getum við farið að ræða einhvern jöfnuð. Ég mundi treysta okkur landsbyggðarfólki til að útfæra mjög vandlega notkun á þeim fjármunum, hvort sem við mundum byggja okkur hátæknisjúkrahús á Hólmavík eða eitthvað annað þá skiptir miklu máli að jöfnun lífskjara sé til staðar. Ef menn vilja hins vegar ekki fara þá leið að jafna rétt almennings í öllu landinu til eðlilegrar þjónustu er þetta tómt mál að tala um að mínu viti.

Það kann vel að vera að það sé einhvern tíma hægt að jafna atkvæðisréttinn en aðstæður til þess eru ekki fyrir hendi nú þegar landsmenn búa við jafnmikið óréttlæti og við sjáum.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu.