139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[21:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fullnustu refsinga, nr. 49/2005. Á vegum innanríkisráðuneytisins er nú unnið að gerð langtímaáætlunar í fangelsismálum. Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir að fram fari heildarendurskoðun á lögunum um fullnustu refsinga. Við þá vinnu sem nú er hafin við gerð þessarar áætlunar var talið nauðsynlegt að leggja strax til breytingar á þeim reglum laganna sem varða fullnustu refsingar utan fangelsa.

Á Íslandi er fangafjöldi í fangelsum um 50 fangar á hverja 100 þúsund íbúa. Er þessi fjöldi sá lægsti í Evrópu. Föngum hefur hins vegar jafnt og þétt fjölgað en ekki er langt síðan einungis voru um 40 fangar á hverja 100 þúsund íbúa. Þá hefur heildarrefsitími þeirra einnig hækkað og listi þeirra sem bíða afplánunar lengst.

Miðað við þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum má gera ráð fyrir að þessi biðlisti muni lengjast enn frekar. Við því þarf að bregðast svo menn þurfi ekki að bíða í óeðlilega langan tíma eftir að hefja afplánun. Góður árangur hefur náðst hér á landi af því að fullnusta refsingu með samfélagsþjónustu. Þá hefur einnig gefist vel að heimila dómþolum að afplána refsingu sína á ýmsum meðferðarstofnunum. Hefur sá tími sem fangar hafa getað dvalið á áfangaheimili Verndar verið lengdur verulega. Hefur þetta gefið góða raun að mati Fangelsismálastofnunar.

Á öðrum Norðurlöndum hefur í auknum mæli verið beitt úrræðum til fullnustu refsingar utan fangelsis. Þar á meðal hefur þar verið beitt svonefndu rafrænu eftirliti. Á Norðurlöndum sjá fangelsisyfirvöld ýmsa kosti við innleiðingu rafræns eftirlits en líta ekki á það sem úrræði til að takast á við skort á fangarýmum heldur sem ákveðna þróun í fullnustu refsinga.

Ég vek athygli á því að í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í mars 2010 er bent á að rafrænt eftirlit með föngum utan fangelsa gæti reynst góður valkostur fyrir valda fanga, sérstaklega ef kostnaður við það mundi lækka. Hvetur Ríkisendurskoðun til að taka til vandlegrar skoðunar hvort ekki sé unnt að innleiða það með öruggum og hagkvæmum hætti.

En ég endurtek að á Norðurlöndum er almennt ekki litið á þetta sem úrræði til að takast á við skort á fangarýmum en jafnframt vísað í hin hagrænu rök sem mér finnst sjálfsagt að horfa einnig til. Ef það er ódýrari kostur fyrir samfélagið að láta fanga fullnusta refsingu utan fangelsis er sjálfsagt að skoða það líka með tilliti til fjárhags ríkisins og hagsmuna á ríkisþinginu.

Mikilvægt er að fjölga fullnustuúrræðum utan fangelsa. Samkvæmt nýútkominni samnorrænni rannsókn um ítrekunartíðni afbrota kemur glöggt í ljós að slík úrræði skila mun betri árangri og eru einnig ódýrari en hefðbundin refsivist í fangelsi. Með frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar til að auka möguleikana á fullnustu refsinga utan fangelsis þannig að menn eru að horfa þarna bæði til hagsmuna fangans til betrunar og til ríkispyngjunnar. Við teljum að þetta tvennt fari saman, við séum með heppilegt úrræði fyrir einstaklinginn, fyrir samfélagið og fyrir skattgreiðandann líka.

Í fyrsta lagi er lagt til það nýmæli að þegar dæmd refsing er 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi eða lengri geti Fangelsismálastofnun leyft fanga að ljúka afplánun utan fangelsis enda hafi hann á sér búnað til að unnt sé að fylgjast með ferðum hans. Það er lagt í hendur Fangelsismálastofnunar að ákveða nánar hvaða búnaður henti best. Til dæmis er unnt að sinna slíku eftirliti með því að fangi hafi á sér síma sem hringt verður í reglulega og gefi upp staðsetningu fanga. Um skilyrði fyrir því að fangi eigi kost á afplánun undir slíku eftirliti er kveðið á um í d-lið 2. gr. frumvarpsins. Er þar meðal annars miðað við að úrræði verði nýtt fyrir þá fanga sem áður hafa notið úrræða til fullnustu utan fangelsis. Þannig eigi fangi þess kost að afplána fyrst refsingu í fangelsi, síðan á áfangaheimili Verndar og að lokum heima hjá sér undir eftirliti. Er það metið svo að þetta fyrirkomulag hvetji fanga til góðrar hegðunar meðan afplánun stendur auk þess sem það er vel til þess fallið að gera honum kleift að laga sig samfélaginu á ný og þar með að draga úr líkum á því að hann brjóti aftur af sér. Þetta er að sjálfsögðu lykilatriði vegna þess að refsing er ekki einvörðungu til að refsa einstaklingnum og ekki hugsuð í reynd sem slík, þetta er ekki hefnd. Það er líka verið að biðja um réttlæti, réttlæti en ekki hefnd hét það hjá Lauterbach á sínum tíma og það er hugsunin í þessu. Dómur er kveðinn upp til að ná fram réttlæti og við viljum að sjálfsögðu einnig stuðla að betrun þeirra sem í hlut eiga.

Í öðru lagi er lögð til sú breyting að heimildin til að afplána refsingu með samfélagsþjónustu verði aukin. Þannig verði þeim sem dæmdur hefur verið í allt að 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi heimilt að afplána refsingu með samfélagsþjónustu en heimildin í dag er bundin við allt að sex mánaða fangelsi. Enn fremur er lagt til að auk þess að hluti samfélagsþjónustunnar geti falist í viðtalsmeðferð geti hún einnig falist í viðurkenndu námskeiði eins og lagt er til í 4. gr. frumvarpsins.

Hæstv. forseti. Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar sem gera föngum kleift að afplána refsingu utan fangelsis í skrefum og aðlagast samfélaginu þannig smám saman áður en afplánun lýkur. Jafnframt gerir þetta fangelsiskerfinu kleift að vinna hraðar á löngum lista þeirra sem bíða afplánunar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjarnefndar og 2. umr.