139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[21:56]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir jákvæðar undirtektir hv. þingmanns við þessu frumvarpi eða þeim hugmyndum sem það byggir á. Hann spyr sérstaklega um fjölgun fangarýma og hvaða áform þar séu uppi. Á hönnunarborðinu, en það á eftir að teikna fangelsið, er fangelsi fyrir 56 fanga sem við gerum ráð fyrir að reisa á Hólmsheiði við Reykjavík og innan Reykjavíkurmarka. Það er útgangspunkturinn. Við létum það jafnframt fylgja með að ef aðrir aðilar gætu sýnt okkur fram á ódýrari kost annars staðar þá væru menn opnir fyrir slíku. Það er á lokametrunum að fara með þessa framkvæmd í útboð og ég vona að það verði hið allra fyrsta.

Hugmyndin var sú að með því að byggja fangelsi á Hólmsheiði eða nýtt gæslufangelsi yrði unnt að loka fangelsunum á Skólavörðustíg og Kvennafangelsinu í Kópavogi. Upphaflega var gert ráð fyrir því að unnt væri að loka fangelsinu á Bitru, sem á sér ekki ýkjalanga sögu, en menn sjá ekki fram á að hægt verði að gera það. Menn hafa verið með alls kyns hugmyndir um önnur úrræði, bent á tómt skólahúsnæði, byggingar fyrir verkamenn austur á Reyðarfirði o.s.frv. Við höfum verið að skoða alla þá þætti en ég legg áherslu á að þau úrræði sem lögð eru til í frumvarpinu ganga út á það að við förum aðrar leiðir. Í stað þess að reisa alltaf ný og stærri fangelsi (Forseti hringir.) þá leitum við nýrra lausna. Við förum út í samfélagsþjónustu í ríkari mæli en verið hefur, við erum að opna á slíkt, og einnig (Forseti hringir.) að fylgjast með fólki með rafrænum hætti eins og lagt er til í frumvarpinu.