139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullnusta refsinga.

727. mál
[21:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég held að við getum verið sammála um það að auðvitað er æskilegt að þörfin fyrir fangarými aukist ekki mikið frá því sem nú er og minnki heldur. Það kann að vera að þau úrræði sem boðuð eru í frumvarpinu verði til að létta á þeirri pressu eða stytta þá biðlista sem eru í dag eftir fangarýmum. En miðað við þær upplýsingar og þá umræðu sem átt hefur sér stað nú síðustu missirin þá held ég að við stöndum frammi fyrir veruleika sem mótast annars vegar af því að ýmis fangelsi sem eru enn í notkun eru ekki fullnægjandi miðað við þá mælikvarða og staðla sem eðlilegt er að miða við í dag. Hæstv. ráðherra nefndi meðal annars Skólavörðustíg og Kvennafangelsið í Kópavogi sem eru hvort tveggja hús sem ekki henta fyrir þessa starfsemi og ekki bjóða upp á þá möguleika sem eðlilegt er að séu fyrir hendi í fangelsum.

Það er líka staðreynd, eins og ítrekað hefur komið fram, t.d. af hálfu Fangelsismálastofnunar, að biðlistar eftir afplánun eða möguleikum á afplánun eru allt of langir. Þrátt fyrir að ég deili þeirri von með hæstv. ráðherra að unnt verði að leysa vandann að stórum hluta með þeim úrræðum sem frumvarpið gerir ráð fyrir þá er ég líka þeirrar skoðunar, og hygg að við hæstv. ráðherra séum ekkert ósammála um það, að nýtt fangelsi sé nauðsynlegt til að mæta þeirri þörf (Forseti hringir.) sem er fyrir hendi. Það er auðvitað dapurleg nauðsyn en ég held að fram hjá henni verði ekki litið.