139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skattlagning á kolvetnisvinnslu.

701. mál
[22:03]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um skattlagningu á kolvetnisvinnslu. Það er 702. mál þessa þings á þskj. 1221. Með þessu frumvarpi eru lögð til ný heildarlög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu. Vorið 2009 voru í fyrsta skipti boðin út leyfi til rannsóknar, leitar og vinnslu á olíu og gasi en svo fór að þátttaka í því útboði var ekki nægjanlega mikil, m.a. vegna þess efnahagsástands sem þá var skollið á en einnig kom fram nokkur gagnrýni á fyrirhugaða skattlagningu starfseminnar. Nú er fyrirhugað að bjóða að nýju út slík sérleyfi með haustinu og er frumvarp þetta lagt fram í tengslum við það fyrirhugaða útboð.

Frumvarpið byggir á núgildandi lögum um skattlagningu kolvetnisvinnslu en með því eru lagðar til breytingar sem taka mið af þeirri gagnrýni sem fram kom á skattkerfið í fyrra útboði. Jafnframt eru lagðar til breytingar til samræmis við frumvarp iðnaðarráðherra um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis þar sem lagt er til að útboðsskilmálum leyfa verði breytt.

Helstu efnisbreytingar frá gildandi lögum um skattlagningu kolvetnisvinnslu sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi:

1. Til samræmis við breytta útboðsskilmála næsta útboðs er lagt til að allir skattskyldir aðilar verði í sama kerfinu, þ.e. greiði ævinlega framleiðslugjald af unnu magni og sérstakan kolvetnisskatt af hagnaði. Í núgildandi lögum greiða skattskyldir aðilar stighækkandi framleiðslugjald af unnu magni þar til þeir ná ákveðinni hagnaðarprósentu af rekstrinum en þá hætta þeir að greiða framleiðslugjald og greiða þess í stað sérstakan stighækkandi kolvetnisskatt.

2. Framleiðslugjaldið verður fastákveðin prósentutala af verðmæti unnins magns sem skal greiða mánaðarlega í staðgreiðslu til ríkissjóðs. Prósentutalan er því ekki stighækkandi líkt og í núgildandi lögum. Framleiðslugjaldið fellur ekki niður þó að viðkomandi skattaðili skili hagnaði og greiði sérstakan kolvetnisskatt, líkt og í gildandi lögum. Í núgildandi lögum er ekkert vinnslugjald greitt af fyrstu 10 milljón tunnunum á hverju ári en með frumvarpinu er fallið frá þeirri leið og greitt er af hverri tunnu sem nýtt er úr auðlindinni sem getur leitt til þess að ríkið hafi tekjur af starfseminni fyrr en ella.

3. Lagt er til að reikniformúlu sérstaks kolvetnisskatts verði breytt á þann hátt að hann leggist á um leið og viðkomandi aðili sýni hagnað af starfseminni. Í núgildandi lögum er skattprósenta kolvetnisskatts reiknuð þannig að frá hagnaðarhlutfalli eru dregin 10 prósentustig og sú samtala margfölduð með ákveðnum stuðli sem gefur endanlega skattprósentu. Með breytingunni er útreikningur skatthlutfallsins einfaldaður og komið til móts við þá gagnrýni sem hefur komið fram á núverandi ákvæði um útreikning sérstaks kolvetnisskatts.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til einfalda skattkerfi kolvetnisvinnslu töluvert og aðlaga það að breyttum útboðsskilmálum næsta útboðs. Áætlað er að þessi kerfisbreyting skili ríkissjóði tekjum fyrr en samkvæmt núgildandi kerfi að því gefnu að kolvetnisvinnsla hefjist í skattalögsögu Íslands. Á móti gætu tekjur ríkisins orðið minni ef framleiðsla verður verulega mikil, sérstaklega ef framleiðsla er mikil en hagnaður viðkomandi fyrirtækis lítill. Nái frumvarpið fram að ganga verður íslenska skattkerfið skilvirkara, gegnsærra og mun samkeppnishæfara við skattkerfi nágrannalanda okkar en nú er.

Ef hafin verður kolvetnisleit í kjölfar framangreindra útboða næstkomandi haust og olía finnst í vinnanlegu magni má ætla að vinnsla geti hafist í fyrst lagi eftir um það bil tíu ár. Á meðan á tilraunaborunum stendur er ekki gert ráð fyrir því að samþykkt frumvarpsins hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð. Ef hafin verður vinnsla kolvetnis má reikna með að það leiði til einhvers eftirlitskostnaðar hjá skattyfirvöldum. Sá kostnaður eykst með auknum umsvifum kolvetnisvinnslu en reikna má með að tekjur ríkisins verði auðvitað verulega hærri af þeirri starfsemi en kostnaði við eftirlit og umsýslu fylgir.

Við vinnu að frumvarpinu var haft víðtækt samráð við ríkisskattstjóra, iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun. Enn fremur var við undirbúning frumvarpsins haft samráð við norsk stjórnvöld sem og erlend olíuframleiðslufyrirtæki. Samhliða þessu frumvarpi og í tengslum við fyrirhugað útboð til rannsóknar og vinnslu kolvetnis er lagt fram annað frumvarp til breytinga á nokkrum skattalögum sem ég mun væntanlega mæla fyrir hér á eftir, frú forseti.

Að lokum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar.