139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skattlagning á kolvetnisvinnslu.

702. mál
[22:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna skattlagningar á kolvetnisvinnslu sem er 701. mál þessa þings á þskj. 1220. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt, tekjuskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda sem leiða af skattlagningu á kolvetnisvinnslu, en frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um skattlagningu á kolvetnisvinnslu sem hér var á dagskrá næst á undan. Bæði frumvörpin eru lögð fram í tengslum við útboð til sérleyfa til rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu sem fyrirhugað er í ágúst nk. Enn fremur hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis sem stendur einnig í beinum tengslum við framangreint útboð.

Í fyrsta lagi eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem fela í sér undanþágu ákveðinnar starfsemi í kolvetnisvinnslu frá virðisaukaskattsskyldu. Er það í samræmi við það sem gildir gagnvart slíkri starfsemi í öðrum ríkjum sem vinna olíu, t.d. í Noregi. Í öðru lagi eru lagðar til nokkrar breytingar á tekjuskattslögum. Með þeim er m.a. verið að taka af öll tvímæli um að kolvetnisstarfsemi á Drekasvæðinu verði skattskyld hér á landi samkvæmt lögum um tekjuskatt og í samræmi við alþjóðareglur. Í þriðja lagi inniheldur frumvarpið breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda en þar er um að ræða afleidda breytingu af tekjuskattsbreytingunni.

Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Ef hafin verður vinnsla kolvetnis getur það leitt til aukins eftirlitskostnaðar en reikna má með að tekjur ríkisins verði þá verulega hærri en sá útgjaldaauki.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og skattanefndar að lokinni þessari.