139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[22:11]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um verslun með áfengi og tóbak. Með frumvarpi þessu eru lögð til ný heildarlög um verslun með áfengi og tóbak. Frumvarpið byggir á vinnu tveggja starfshópa sem skipaðir voru á árunum 2009 og 2010. Annars vegar er um að ræða sérfræðingahóp sem skilaði skýrslu um heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar í byrjun árs 2010. Meginniðurstaða þess starfshóps var sú að mikilvægt væri að stjórnvöld settu sér heildstæða stefnu í áfengismálum til næstu ára jafnframt endurskoðun á gildandi lögum með þá stefnu til hliðsjónar. Hins vegar er starfshópur skipaður af fulltrúum fjármálaráðherra, innanríkisráðherra og ráðherra velferðarmála sem hafði það hlutverk að móta stefnu stjórnvalda í áfengismálum. Þær breytingar sem lagðar eru til í meðfylgjandi frumvarpi eru í takt við tillögur þessara tveggja starfshópa.

Þær breytingar frá eldri lögum sem varða stefnu stjórnvalda eru nokkrar. Lagt er til að sérstök markmið verði sett sem miða að því að bæta lýðheilsu og samfélagslega ábyrgð ÁTVR. Nýtt lagaákvæði er lagt til um vöruval og innkaup ÁTVR ásamt því að ÁTVR verði veitt heimild til að hafna vörum út frá nánar tilteknum viðurkenndum sjónarmiðum.

Þá er gerð tillaga um að í lögunum verði að finna nýtt ákvæði sem skyldi ÁTVR að starfa samkvæmt yfirlýstri stefnu stjórnvalda hverju sinni með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Snar þáttur í því verkefni er að vinna gegn skaðlegri neyslu áfengis og tóbaks.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að stofnunin ÁTVR heyri beint undir fjármálaráðherra án sérstakrar stjórnar.

Með þessu frumvarpi er í stórum dráttum lagt til að helstu verkefni ÁTVR verði lögfest á grundvelli stefnu stjórnvalda í áfengismálum, en í dag eru mörg þeirra einungis talin upp í reglugerð. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni koma til með að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.