139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[22:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 31. gr. laganna sem lýtur að hæfi manna til þess að taka sæti í stjórnum lífeyrissjóða og hæfi framkvæmdastjóra og 36. gr. laganna sem lýtur að fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða.

Á síðasta þingi voru gerðar breytingar á ákvæðum um hæfi stjórnarmanna til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja annars vegar og vátryggingafélaga hins vegar. Skilyrði til stjórnarsetu voru þrengd í nefndum lögum en rétt þótti að takmarka svonefnda krossstjórnarsetu á fjármálamarkaði til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og til að lágmarka orðsporsáhættu. Í frumvarpi þessu er lagt til að sömu sjónarmið verði tekin upp í ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Það er því lagt til að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum megi ekki eiga sæti í stjórn annars eftirlitsskylds aðila, þar með talið lífeyrissjóðs, eða aðila í nánum tengslum við hann eða vera starfsmenn eða endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila eða aðila í nánum tengslum við hann.

Í frumvarpinu er kveðið á um þrjár sérreglur sem byggja á sérstökum sjónarmiðum sem eiga við um lífeyrissjóðina. Í fyrsta lagi er lagt til að stjórnarmaður eða starfsmaður lífeyrissjóðs geti tekið sæti í stjórn fjármálafyrirtækis, sem er að hluta til í eigu þess lífeyrissjóðs, enda hafi fjármálafyrirtækið ekki með höndum aðra starfsemi en þá sem lýtur að þjónustu við lífeyrissjóði. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, til þess að koma til móts við sjónarmið um áhrif sjóðfélaga á stefnumörkun og stjórn lífeyrissjóða, að starfsmaður eftirlitsskylds aðila geti tekið sæti í stjórn lífeyrissjóðs ef hann er kosinn eða skipaður úr hópi sjóðfélaga. Þá er í þriðja lagi lagt til að stjórnarmaður í lífeyrissjóði geti tekið sæti í stjórn annars lífeyrissjóðs að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins enda sé talinn hagur í því, t.d. þegar um sambærileg og flókin réttindakerfi er að ræða hjá lífeyrissjóðum. Rétt er að taka fram að lagt er til að Fjármálaeftirlitið geti gert athugasemdir við stjórnarsetu á grundvelli fyrstnefndu undanþágnanna telji eftirlitið undanþágu baka hættu á hagsmunaárekstrum.

Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar til viðbótar er varða hæfi en þær eru allar til samræmis við samsvarandi ákvæði í lögum um aðra eftirlitsskylda aðila á fjármálamarkaði. Í frumvarpinu er m.a. kveðið á um breytingar á almennum hæfisskilyrðum stjórnarmanna og framkvæmdastjóra. Enn fremur er lagt til að kveðið verði á um að stjórnarmenn lífeyrissjóðs megi ekki sinna lögmannsstörfum fyrir annan lífeyrissjóð. Þá er lagt til að starfsmönnum lífeyrissjóðs verði óheimilt að sitja í stjórn hans.

Lagðar eru til breytingar á 36. gr. laganna um fjárfestingarheimildir. Þar er gert ráð fyrir að kveðið verði á um leyfilegar hömlur í viðskiptum með eignarhluti í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu með skýrum hætti, en nokkur vafi hefur leikið á um skilyrði fjárfestinga í slíkum sjóðum. Því er lagt til að kveðið verði á um að fjárfestingar í sjóðum samkvæmt 8. tölulið 1. mgr. 36. gr. séu heimilar þótt hömlur séu á viðskiptum með eignarhlutina enda hafi þær hömlur eðlilegan viðskiptalegan tilgang og séu til þess fallnar að gæta hagsmuna fjárfesta.

Að því er varðar hömlur í viðskiptum með óskráð hlutabréf er lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða um að lífeyrissjóðum verði veittar heimildir til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja þótt hömlur séu á viðskiptum með hlutabréfin enda samrýmist þær lögum um hlutafélög og eftir atvikum öðrum lögum. Breytingin er lögð til með það fyrir augum að rýmka tímabundið skilyrði fyrir fjárfestingu í óskráðum hlutabréfum í fyrirtækjum. Lagt er til að bráðabirgðaákvæðið gildi til 31. desember 2015 með vísan til áætlunar Seðlabanka Íslands um afnám gjaldeyrishafta. Þannig verði lífeyrissjóðum tímabundið heimilt að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum fyrirtækja þótt einhverjar hömlur gildi um meðferð hluta samkvæmt ákvæðum samþykkta enda séu þær innan marka þess sem löggjafinn hefur leyft í lögum um hlutafélög eða eftir atvikum öðrum lögum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari.