139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[22:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fé sem geymt er í lífeyrissjóðunum er u.þ.b. 2 þús. milljarðar, sem eru um 15 milljónir hrein nettóeign hverrar fjölskyldu í landinu, þannig að við erum að tala um verulega mikla hagsmuni. Fólk á almennt séð meira í lífeyrissjóðum sínum nettó en það á í íbúðum sínum. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir fólk að það hafi áhrif á stjórnun þess fjármagns sem það er svona gífurlega háð. Þegar maður er orðinn gamall og þreyttur og kominn á eftirlaun eða þá öryrki eða fallinn frá skiptir það hann og fjölskyldu hans verulegu máli að til staðar séu peningar til að greiða eftirlaun í mjög langan tíma. Þess vegna er ekki út í hött að sjóðfélagar kjósi stjórnir beinni kosningu þannig að þeir geti valið sér menn sem þeir fela það mikla ábyrgðarhlutverk. Ég vildi gjarnan fá álit hæstv. fjármálaráðherra á því að sjóðsfélagar kjósi stjórnir lífeyrissjóða beinni kosningu.

Síðan er spurning með þetta mikla fé, þessar 15 milljónir, hvort ekki sé rétt að láta fólk vita af þeirri eign sinni með því að gefa upp verðmæti lífeyrisréttinda sem eru reiknuð á hverju einasta ári. Það er ekki eins og það sé einhver vandi að reikna þau út, það er miklu auðveldara en að reikna út verðmæti hlutabréfa sem þó ganga kaupum og sölum. Væri ekki rétt að gefa upp þessa eign fólks? Væri ekki eðlilegt að hún félli þá undir auðlegðarskatt líka? Það eru margir sem eiga yfir 100 milljónir í lífeyrisréttindum og ættu þar af leiðandi að borga auðlegðarskatt. Hinir sem hafa ekki stefnt að miklum réttindum í lífeyrissjóðum heldur safnað sér eignum í fasteignum (Forseti hringir.) eða slíku þurfa að borga auðlegðarskatt.