139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

verndar- og nýtingaráætlun vegna virkjunar fallvatna og jarðhita.

77. mál
[22:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni iðnaðarnefndar fyrir greinargott yfirlit yfir nefndarálitið um þetta frumvarp. Það er mikið gleðiefni fyrir okkur sem aðhyllumst hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að ríkið taki sér vald með þessu frumvarpi sem vonandi verður að lögum til að skipuleggja nýtingu orkuauðlinda með hliðsjón af verðmætamati náttúruauðlinda út frá jafnt sjónarmiðum verndar sem nýtingar.

Ég vil líka fagna því sem fram kemur í nefndarálitinu, að um frumvarpið hafi verið fjallað í samvinnu við umhverfisnefnd og fer vel á því.

Ég vil aftur á móti spyrja hv. þingmann út í 3. gr. frumvarpsins sem hann kom einmitt inn á að umsagnaraðilar hefðu gert athugasemd við. Ég vísa í 1. mgr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra leggur í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um áætlun til næstu 12 ára um vernd og nýtingu landsvæða vegna virkjunar fallvatna og háhita.“

Ég vil spyrja formann iðnaðarnefndar hvort iðnaðarráðherra fái í raun með þessu forræði yfir verndaráætlun þeirra landsvæða þar sem orkuauðlindir er að finna og óska eftir svari við því.