139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

13. mál
[23:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég stend upp til að fagna því að málið sé komið þetta langt á veg. Það hefur tvívegis verið lagt fyrir Alþingi og nú í síðara sinnið kom það til meðhöndlunar hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og fékk þar mjög vandaða umfjöllun.

Eins og fram kom í máli hv. framsögumanns Björns Vals Gíslasonar voru allmargir aðilar kallaðir fyrir nefndina. Við fengum allmargar umsagnir sömuleiðis og síðan fór fram ítarleg umræða um málið í nefndinni. Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið og nefndarálitið gerir að sínum er megintilgangur þess að draga úr millifærslukerfi í landbúnaði og gera verðlagningu gagnsærri. Við teljum að með því móti verði skilyrði fyrir samkeppni bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Að auki, sem skiptir líka miklu máli, mun skilgreindur opinber stuðningur við landbúnað eins og hann er metinn t.d. á alþjóðavísu lækka um allt að 400 millj. kr.

Málið er þannig vaxið að það felur í sér tilteknar breytingar á búvörulögum sem eru mjög til samræmis við það sem svokölluð verðlagsnefnd búvara hefur ályktað um áður. Í henni eiga sæti fulltrúar mjólkurframleiðenda, mjólkurafurðastöðva og fulltrúar neytenda frá bæði ASÍ og BSRB sem hafa lagt áherslu að farið yrði í þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir. Þeir sem helst hafa gagnrýnt frumvarpið hafa fyrst og fremst gert það á þeim forsendum að jafnframt eigi að gera aðrar breytingar á búvörulögum sem eru þó óskyldar efni þessa frumvarps í sjálfu sér.

Ég vil sérstaklega þakka það góða starf sem átti sér stað innan hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og það var mjög til fyrirmyndar hvernig að því máli var staðið og enn fremur sú mikla umræða sem fór fram um málið milli nefndarmanna eftir að umsagnaraðilar höfðu látið í ljósi skoðanir sínar og upplýst málið frekar. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á þessu og fagna því jafnframt að málið er komið til 2. umr. sem jafnan er efnismesta umræðan þar sem við tökumst á við tilteknar breytingar á efnisgreinum frumvarpsins. Eins og hér kemur fram voru gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu frá því það var upphaflega lagt fram og ég tel að þær séu mjög til bóta. Ég vænti þess að málið geti orðið að lögum síðar á þessu þingi.