139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum.

477. mál
[23:27]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bryddað er upp á mörgum þörfum grundvallarspurningum í sambandi við þetta. Ég tek undir með hv. þingmanni að fjölskylduvænt umhverfi er markmiðið sem við viljum auðvitað stefna að hér á landi og í hinum vestnorrænu löndum. Aðstæðurnar í þessum löndum eru mjög mismunandi og þar af leiðandi er ekki einhlítt að svara því hvað það er í samfélagsgerðinni sem kallar fram að einstæðum foreldrum er að fjölga. Ég hygg að allt aðrar ástæður liggi því til grundvallar á Grænlandi þar sem mjög alvarleg félagsleg vandamál skýra þetta að hluta til og eru annars eðlis en á Íslandi þar sem ástæðan er kannski miklu frekar sú að konur eiga einmitt möguleika á að geta átt börn og alið þau upp þó þær standi einar. Í Grænlandi aftur á móti eru aðrir alvarlegir hlutir uppi. Þar er fjöldi fóstureyðinga gríðarlega mikill og þrisvar sinnum meiri, held ég að ég fari rétt með, en á Íslandi þótt Grænlendingar séu aðeins 50 þúsund talsins. Það gefur vísbendingu um ákveðin vandamál sem þar eru til staðar. Því er einmitt mjög knýjandi, bæði þeirra vegna og okkar, að við horfum svolítið heildstætt á málið og reynum að átta okkur á því í hverju mismunurinn er fólginn á þeim vandamálum sem uppi eru í löndunum þremur löndum, og hvað við getum lært hvert af öðru í því sambandi.

Hvers vegna flýja konur landsbyggðina? Það eru oft efnahagslegar ástæður sem valda því, atvinnumissir og annað, því atvinnulaus maður á landsbyggðinni er ekki lengi á landsbyggðinni. Hann verður fljótlega félagslegt vandamál í Reykjavík ef mál hans leysast ekki og það á auðvitað við um konurnar líka. (Forseti hringir.) Oft er auðveldara að fá félagslega aðstoð í þéttbýlinu og á höfuðstöðvunum en í dreifbýlinu.