139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

efling samgangna milli Vestur-Norðurlanda.

479. mál
[23:34]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna vinnuhóp í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar, NORA, til að vinna tillögur til eflingar á innviðum flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlanda í þágu aukins samstarfs á svið ýmiss konar viðskipta og þjónustu auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Byggt verði á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hjá ýmsum stofnunum á svæðinu og skoðaðar verði sérstaklega í þessu sambandi forsendur fyrir auknum tengslum á sviði þjónustu og viðskipta milli Vestfjarða og Austur-Grænlands.

Eins og fyrri tillögur sem ég hef flutt í kvöld er tillagan lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins sem samþykkt var á ársfundi þess í ágúst síðastliðnum í Tasiilaq á Grænlandi. Samstarf Vestur-Norðurlanda hefur aukist verulega undanfarin ár samhliða auknu sjálfsforræði Færeyinga og Grænlendinga innan ríkjasambands þeirra við Danmörku. Markmið Vestnorræna ráðsins sem var stofnað 1985 er einkum að efla samráð og samvinnu ríkis og landsstjórna Vestur-Norðurlanda um mikilvæg hagsmunamál.

Sjó- og flugsamgöngur gegna lykilhlutverki þegar kemur að eflingu vestnorræns samstarfs. Sem dæmi hafa Færeyingar í auknum mæli sótt sér heilbrigðisþjónustu til Íslands á grundvelli fríverslunarsamningsins sem Ísland og Færeyjar gerðu með sér árið 2006 og hafa þeir þar með nýtt sér nálægð landanna.

Skilvirkar samgöngur á milli Vestur-Norðurlanda eru þannig forsenda aukinna þjónustuviðskipta og vöruflutninga milli landanna og það sama gildir um ferðamennsku. Nokkur samvinna hefur verið milli Vestur-Norðurlanda á sviði ferðamála frá árinu 1995 þar sem m.a. hefur verið unnið að sameiginlegri markaðssetningu svæðisins. Betri flugsamgöngur milli Íslands og Grænlands hafa m.a. stuðlað að því að ferðamennska hefur aukist á Grænlandi. Loftferðasamningar sem Ísland stefnir á að gera við Færeyjar og Grænland samhliða aukinni samvinnu vestnorrænna flugfélaga og ferðaskrifstofa gæti orðið til að hægt yrði að bjóða upp á „vestnorræna hringinn“, flug- eða sjóleiðina milli Íslands, Færeyja og Grænlands.

Hugmyndir hafa verið settar fram um aukin tengsl Ísafjarðar og austurstrandar Grænlands sem lúta að þjónustu, þar með talið heilbrigðisþjónustu, við fyrirhugaða námavinnslu á austurströnd Grænlands og við rannsóknaleiðangra og ferðamennsku þar sem t.d. yrði mynduð tengsl á milli friðlandsins á Hornströndum og þjóðgarðsins á Austur-Grænlandi, samvinna á sviði menningar- og menntamála og fleira sem telja mætti. Í kjölfar áhugans um að efla tengslin á milli Vestfjarða og austurstrandar Grænlands hefur farið fram þó nokkur vinna við að kanna möguleikana á auknum tengslum. Ljóst er að meginforsendur aukinna tengsla eru tvær:

Í fyrsta lagi að millilandaflug verði heimilað á Ísafjarðarflugvelli, annaðhvort með því að uppfylla skilyrði þar um eða fá undanþágu frá þeim. Austurströnd Grænlands er aðeins aðgengileg sjóleiðina um fimm til átta mánuði ársins vegna hafíss og flugsamgöngur gegna því mikilvægu hlutverki fyrir austurströnd Grænlands.

Í öðru lagi þarf að vinna að samkomulagi um aðgang að höfnum á Grænlandi við heimastjórnina en eins og er hefur grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line A/S einkaleyfi á siglingu með vörum til allra hafna í Grænlandi. Í því sambandi má benda á að möguleg lausn er samkomulag svipað því sem Norðmenn og Rússar eru að vinna að um gerð nokkurs konar frísvæðis milli landamærahéraða Noregs og Rússlands sem munu heimila um 40 þúsund Rússum og 9 þúsund Norðmönnum að fara á milli landanna án vegabréfs.

Í ljósi þeirrar samvinnu sem þegar er á milli Vestur-Norðurlandanna og áhuga á að efla þá samvinnu enn frekar leggur Vestnorræna ráðið til við ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands að stofnaður verði vinnuhópur með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar, NORA, til að kortleggja flug- og sjósamgöngur á milli Vestur-Norðurlandanna með hliðsjón af þeim skýrslum sem þegar hafa verið gerðar og vinna að tillögum um eflingu innviða, flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlanda. Í þeirri vinnu er mikilvægt, að mati Vestnorræna ráðsins, að horfa til framtíðar landanna með hliðsjón af samstarfi á sviði ferðamennsku, fræðslu- og menningarstarfsemi auk samstarfs á sviði viðskipta og þjónustu ýmiss konar, m.a. í tengslum við fyrirhugaðan námaiðnað á Grænlandi og aukinna siglinga á norðurslóðum, bæði vöru- og farþegaflutninga.

Að svo mæltu legg ég til, frú forseti, að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar.