139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[16:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Góðir tilheyrendur. Það er stundum talað um að vantraust þjappi ríkisstjórnum saman en varla hefur það verið tilgangur Sjálfstæðisflokksins, þótt hann sé almennt velviljaður, [Hlátur í þingsal.] að þjappa þessari ríkisstjórn saman. En gæti þá verið að þessi vantrauststillaga væri til heimabrúks, að hún eigi að þjappa Sjálfstæðisflokknum saman, hjörðinni sem er innan veggja þingsins, þeim sem eru uppi í Hádegismóum og öllu þar á milli? Gæti verið að öll hjörðin ætti loksins að geta sameinast um eitt, að vera á móti ríkisstjórninni? (Gripið fram í.)

Ég verð að segja, frú forseti — þetta er útvarpsútsending og það er ágætt að taka fram fyrir óreynda þingmenn að það er ákaflega óþægilegt að hlusta á það í útvarpi þegar menn gjamma mikið úti í salnum. (Gripið fram í.) Við sem oft höfum kallað fram í á fundum höfum alltaf virt þá reglu að hafa sæmilegan frið í umræðunni þegar henni er útvarpað og sjónvarpað. Takk fyrir. [Kliður í þingsal.]

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er alveg ótrúlega illa lesinn í þeim Krugman og Stiglitz. Það er rétt að þeir hafa vissulega fjallað bæði um gjaldmiðilinn og það hvernig hér var staðið að málum með neyðarlögum, en þeir hafa fjallað um margt fleira í mörgum pistlum um Ísland. (Gripið fram í.) Þeir hafa t.d. fjallað um það að Ísland hefur farið sína eigin leið og notað sitt eigið módel við aðgerðir í efnahagsmálum. Það hefur staðið vörð um velferðarkerfið. Þeir hafa báðir bent á að það væri ekki bara félagslega réttlátt heldur líka efnahagslega skynsamlegt því að eitt það vitlausasta sem menn gerðu væri að veikja lífskjör þeirra sem lakast standa, jafnvel þó að erfitt væri í ári. Þeir hafa fjallað um góðan árangur í ríkisfjármálum og það hafa margir fleiri gert þannig að ég hvet hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, ef hann er að vitna í fræðimenn á annað borð, að lesa þá allt en ekki bara sumt.

Síðast var flutt hér vantrauststillaga á ríkisstjórn í lok nóvembermánaðar 2008. Það gerði m.a. sá sem hér stendur. Þá sameinuðust formenn allra stjórnmálaflokka um að flytja vantraust á ríkisstjórn sex vikum eftir hrun bankanna, eftir langvarandi áköll þar um utan úr þjóðfélaginu og eftir að sú ríkisstjórn hafði hafnað tilboðum stjórnarandstöðu um þjóðstjórn og/eða kosningar. Þá var tæplega 18 ára valdatíma Sjálfstæðisflokksins að ljúka. Hinir meintu sigrar nýfrjálshyggju og einkavæðingar breyttust í martröð heillar þjóðar þegar hér þurfti að grípa til neyðarráðstafana með neyðarlögum. Hér varð fjármálakreppa, gjaldeyriskreppa og efnahagskreppa. Rómuð útrásarár enduðu með því að íslenska þjóðarbúið átti vart fyrir gjaldeyri fyrir olíu og lyfjum í lok nóvembermánaðar 2008. Síðustu dollararnir fóru í tösku með forvera mínum, Árna Mathiesen, þegar hann fór til Washington að biðja um neyðaraðstoð og því hefur hann lýst í bók. Þannig var nú það. Já, við skulum bera saman forsendur og aðstæður vantrauststillögunnar nú og þeirrar sem þá var flutt. Það er einmitt hið rétta samhengi sem lítið fór fyrir í máli málshefjanda, hv. þm. Bjarna Benediktssonar.

Berum saman nú og þá. Hrundi svo til allt bankakerfi landsins fyrir sex vikum? Nei, það hefur verið endurreist og það með meira en 200 milljarða kr. minni kostnaði en til stóð.

Hefur gengi íslensku krónunnar hrunið um 40% að undanförnu? Nei, það hefur styrkst um 7–8% og er stöðugt.

Hafa stýrivextir hækkað í 18% í vetur? Nei, þeir hafa lækkað í 4,25%, er það ekki? Þeir eru hinir lægstu í sögu Seðlabankans. Hefur verðbólgan farið í tæp 19% á undanförnum vikum? Nei, hún er komin inn fyrir vikmörk Seðlabankans. Hún er sú lægsta í sjö ár, og stöðug.

Er Ísland nýkomið á lista yfir þau 10 lönd sem líklegust séu til að verða gjaldþrota? Gerðist það um daginn? Nei, Ísland er farið út af þessum lista fyrir meira en ári og hvergi á byggðu bóli er lengur rætt um það að hjá íslenska ríkinu verði greiðslufall.

Er hallinn á ríkissjóði 217 milljarðar eins og hann var 2008? Er hann það? Nei, samkvæmt áætlun verður hann 37 milljarðar, 2,6% af vergri landsframleiðslu. Það verður 1% afgangur af frumjöfnuði og Ísland verður eitt aðeins átta OECD-ríkja sem nær þeim árangri samkvæmt fjárlögum sínum í ár.

Er neikvæður vöruskiptajöfnuður upp á 15–20% og bullandi erlend skuldasöfnun í gangi? Nei, það er 10% afgangur á vöruskiptum við útlönd. Og við erum tekin að greiða niður erlendar skuldir. (Gripið fram í.) Er áhættuálagið á Íslandi komið í 1.000 punkta? Gerðist það í síðustu viku? Nei, það er komið niður í 216 punkta.

Þannig gæti ég lengi talið upp ef við viljum bera þetta saman á annað borð. Til marks um hvað er þetta? Þetta er til marks um mikinn árangur sem þessi ríkisstjórn hefur náð þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það hefur tekist hér, það hefur kostað sitt, fórnir og baráttu, að ná hér stöðugleika, innleiða hann og hagstæð samkeppnisskilyrði. Opinber fjármál eru á góðri leið með að verða sjálfbær og þar með hafa verið sköpuð skilyrði fyrir það að hin margfrægu hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar og að hér geti sjálfbær og traustur hagvöxtur gengið í garð. (Gripið fram í.)

Hrunið þýddi það, ágætu sjálfstæðismenn sem hafið ekki enn lært mannasiði, að ekkert af þessu var til staðar þegar við tókum við. Það vantaði allar forsendur sem þarf til þess að hægt sé að hefja endurreisn á traustum grunni. Þær eru núna komnar, þær eru það. Hagvöxtur er genginn í garð. Allar spár gera ráð fyrir um 2,5%–2,9% hagvexti á þessu ári, (Gripið fram í: Nei, það er rangt.) nú síðast spá Danske Bank hvað sem mönnum finnst um hana að öðru leyti. (REÁ: En atvinnuleysisspá?)

Fasteignamarkaðurinn er farinn að taka við sér. Atvinnuleysið er vissulega mikið en það hefur náð hámarki, það helst nú óbreytt milli mánaða og er um 0,7% lægra í þessum mánuðum en það var í sömu mánuðum í fyrra og 2009. (Gripið fram í.) Atvinnuleysið er á niðurleið. (REÁ: Hvað eru margir …?) Gangi vel — frú forseti, þetta er alveg makalaust með Sjálfstæðisflokkinn, það er ekki nokkur leið að þeir sýni lágmarkskurteisi í umræðu um vantraust í útvarpsútsendingu. (ÁJ: Ráðherrann …) Það er ekki nokkur leið og ekki er nú Árni Johnsen …

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumönnum tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Frú forseti. Það eru sem sagt ýmsar borðleggjandi staðreyndir sem þýðir ekki að tala fram hjá eins og þær séu ekki til. Þar með heldur enginn því fram að allir okkar erfiðleikar séu að baki, enda stóð aldrei til að það yrði þannig, að þetta skelfilega hrun og þessir miklu erfiðleikar gufuðu bara upp með einhverjum bellibrögðum á örfáum mánuðum eða missirum. Það var aldrei í kortunum, því miður, hver heilvita maður mátti vita að íslensku þjóðarinnar biði langt og erfitt baráttu- og uppbyggingarstarf. Annað gat aldrei orðið miðað við þau ósköp sem yfir okkur dundu.

Ríkisstjórnin hefur þrátt fyrir erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum gert allt sem hægt er að segja að viðráðanlegt hafi verið til að takast á við þetta ástand. Þá meina ég í skilningnum að reyna að halda utan um samfélagið, glíma við atvinnuleysið og gera þetta eins bærilegt og mögulegt er við þröngan kost.

Örlítil upptalning um það. Við höfum með miklum árangri keyrt það sem við köllum Allir vinna átakið með 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna endurbóta á húsnæði og skattfrádrætti að auki. Við settum 3,5 milljarða í viðhald opinbers húsnæðis í fyrra þrátt fyrir þrönga stöðu ríkissjóðs. Við höfum skapað 1200–1500 sumarstörf fyrir námsmenn hvort ár, 2009 og 2010, og munum aftur gera í ár. Við settum 350 milljónir í vel heppnað markaðsátak í kjölfar eldgossins vorið 2010 sem sneri vörn í sókn og gerði það að verkum að ferðaþjónustuárið kom næstum því út á sléttu miðað við metárið 2009. Við höfum sett lög um skattaívilnanir fyrir nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Við höfum sett rammalög um ívilnanir fyrir nýfjárfestingar. Við höfum gert skólum kleift að taka við fleiri nemendum. Á fimmta þúsund atvinnuleitendur eru í virkniúrræðum og þar eru sérstök virkniúrræði fyrir unga atvinnuleitendur. Við greiddum atvinnuleitendum í fyrsta skipti í háa herrans tíð desemberuppbót fyrir jólin upp á 250 milljónir. Við höfum lengt rétt til atvinnuleysisbóta úr þremur í fjögur ár. Við höfum tekið upp veikindadaga fyrir atvinnuleitendur. Við höfum gert fólki mögulegt að taka atvinnuleysisbætur á móti hlutastörfum.

Þá tel ég upp aðeins hluta af því sem þó hefur verið reynt að gera til að glíma við þetta ástand og gera það eins bærilegt og kostur er á meðan við erum að fara í gegnum það. Öll viljum við fara atvinnu- og uppbyggingarleiðina. Að sjálfsögðu viljum við öll að hér komi fjárfesting og uppbygging, að störfum fjölgi og atvinnuleysið fari niður eins hratt og mögulegt er. Og það eru allar forsendur til þess. Við sjáum aukin verðmæti í útflutningi frá bæði sjávarútvegi og áliðnaði og stóriðju. Við sjáum metár fram undan og þegar hafið í ferðaþjónustu. Við höfum séð mikinn vöxt í nýjum tæknigreinum, lyfjaiðnaði og hugbúnaði. Það verða umtalsverðar orku- og virkjunarframkvæmdir á komandi árum, ég bendi mönnum á að mæta á ársfund Landsvirkjunar á föstudaginn kemur, en þær verða á nýjum forsendum, sjálfbærni, í fjölbreyttum iðnaði sem ber framtíðina með sér og á nýjum sviðum.

Staðreyndin er sú, frú forseti, að það er alveg sama hvar mann ber niður og hvernig maður liggur yfir þeim tölum sem við lögðum af stað með í þennan leiðangur í janúar 2009. Ég kann þær nokkuð vel, það mikið hef ég vakað yfir þeim, alveg frá þeim tíma. Það er alveg sama hvar við skoðum þær og berum saman við stöðu okkar í dag, hún er til mikilla muna betri. (BjarnB: Nema hvað?) Hún er til mikilla muna betri en þá var spáð, hv. þm. Bjarni Benediktsson. Til dæmis er samanlagður halli ríkissjóðs á árunum 2009, 2010 og 2011 115 milljörðum kr. minni en áætlunin þá gerði ráð fyrir. Til dæmis eru heildarskuldir ríkisins hættar að aukast. Þær hafa staðnæmst við um 84% af vergri landsframleiðslu, rúmlega 40% nettó, sem er mun lægra skuldahlutfall en við reiknuðum með fyrir tveimur árum að við sætum uppi með. Þannig er það.

Auðvitað er það klárt og á hreinu, frú forseti, að við vildum öll að hrunið hefði ekki átt sér stað, en það gerðist. Veruleikinn er sá sem ræður för. Við höfum nú glímt við þennan veruleika í hartnær tvö og hálft ár. Í þeirri glímu hefur auðvitað reynt á og það er ekkert skrýtið við það. Það er erfitt að þurfa að skera niður í ríkisfjármálum, hækka skatta, horfa á háar atvinnuleysistölur og finna til vanmáttar gagnvart því ástandi, sjá skerðingu kaupmáttar. Auðvitað tökum við það öll inn á okkur, en veruleikinn er eins og hann er og við fáum honum ekki breytt með lýðskrumi eða blekkingum. Það góða er að nú er sannanlega betri tíð í vændum. Það er bölsýni, það er að tala þjóðina niður, að viðurkenna ekki einu sinni það. Þá eiga menn ekki að koma í ræðustól og segja að menn eigi ekki að tala kjark úr þjóðinni ef þeir viðurkenna þó ekki opinberar hagtölur sem segja okkur að betri tími sé í vændum, að hagvöxtur sé hafinn, að umsnúningur sé orðinn í hagkerfinu. (Gripið fram í: … ríkisfjármálum.)

Nú sem endranær er mikilvægt verkefni stjórnmálanna að reyna að skapa sæmilegan vinnufrið og sátt í samfélaginu. Ef hrunið hefur kennt okkur Íslendingum eitthvað ætti það að vera það að ofmetnast ekki. Það er algerlega á hreinu að afturhalds- og niðurrifsöfl, öfl sem sakna gamla Íslands, sjálfsupphafningin, þjóðrembingurinn og Ísland best í heimi-hugsunarhátturinn skilar okkur engu. Hitt er rétt að Ísland er gott land og ríkulega búið auðlindum. Við erum vel menntuð og vinnusöm þjóð og búum að því að vera í þróuðu norrænu samfélagi með sterka innviði þannig að framtíð okkar er björt. Það þarf enginn að efast um það. Kreppan má bara ekki skrúfast föst í höfðinu á okkur.

Vandi okkar nú, miðað við allt sem við blasir, er að verða meira huglægur en efnahagslegur. Alveg sérstaklega hrjáir þetta blessaða stjórnarandstöðuna. (VigH: Rangt.) Þessi ríkisstjórn þarf ekki að kvíða dómi sögunnar. Hún hefur þegar lagt inn á þann reikning glæsilegan árangur í baráttu við erfiðar aðstæður.

Og hún þarf ekki að kvíða atkvæðagreiðslunni hér í kvöld. (Gripið fram í: Góður.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)