139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[17:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Spyrja má hvers vegna lögð er fram vantrauststillaga á ríkisstjórn sem studd er meiri hluta þingmanna á Alþingi. Svarið er augljóst, ríkisstjórninni hefur allt frá því að hún settist að völdum snemma á árinu 2009 mistekist ætlunarverk sitt þannig að með ólíkindum er. Allir þekkja hve mikill vandræðagangur hefur verið á málum stjórnarinnar, hver uppákoman á fætur annarri.

Eftir að hafa hlustað á ræður forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar í dag er augljóst að þeir búa ekki í sama landi og aðrir Íslendingar þar sem stöðugt kreppir að á íslenskum heimilum. Þær hagtölur sem hæstv. fjármálaráðherra las upp — og við skulum gleðjast yfir þeim árangri sem þó hefur náðst — skila sér ekki í því að íslensk heimili geti greitt þá reikninga sem þau þurfa að greiða um hver mánaðamót. Við vitum, af því að það hefur þegar verið boðað, að auknar álögur eru boðaðar á heimilin í landinu.

Á laugardaginn gerðist það, og það er nauðsynlegt fyrir þingið að tala um það, að Icesave-lögunum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í annað sinn. Hið fyrra sinn var það gert svo afgerandi að það var beinlínis niðurlægjandi fyrir ríkisstjórnina, nú á laugardaginn með töluvert miklum mun þótt það sé alveg augljóst að þar var allt annað mál á ferðinni en það fyrra. Þarna var um að ræða lög sem við sem hér sitjum höfðum allflest samþykkt og greitt atkvæði með áður en þau gengu til þjóðarinnar. Hvernig má þá vera að við tökum það ekki til okkar? Við getum ekki látið eins og ekkert sé. Ef Alþingi ætlar sér að vinna traust þjóðarinnar til baka verður Alþingi að sækja það til þjóðarinnar í kosningum. Önnur afstaða er vanvirðing við íslenskan almenning, þjóðin talaði, gaf ríkisstjórninni rauða spjaldið og Alþingi verður að leggja við hlustir. En hér situr hrætt fólk, hrætt við kjósendur, hrætt við hagsmunaaðila, hrætt fólk sem hefur í hótunum eins og hæstv. forsætisráðherra gerði stöðugt í ræðu sinni áðan, talar stöðugt um fortíðina, stöðugt föst í eigin kreddum. Óttast hæstv. forsætisráðherra kosningar? Óttast hún framgang síns flokks eða frammistöðu í slíkum kosningum? Óttast hún það svo mjög að Sjálfstæðisflokkurinn, sem hún nefndi svo oft í ræðunni að ekki var hægt að hafa tölu á, næði hugsanlega árangri í kosningum? Er hæstv. forsætisráðherra hræddur við niðurstöðu kjósenda í kosningum?

Við verðum að komast upp úr því feni sem við erum sokkin í, ganga til kosninga og kjósa um það hvernig við viljum byggja landið upp til framtíðar. Þar fyrir utan er löngu tímabært að fá úr því skorið hverjir hér inni styðja þessa ríkisstjórn og hverjir það eru sem meta það svo að þeirra hjartans málum sé betur borgið með þessa ríkisstjórn í stafni en að snúa sér til þjóðarinnar og fá svar hennar við því hvaða verkefni eru brýnust. Er stuðningur við ríkisstjórnina byggður á sannfæringarkrafti um að hún sé að gera rétt? Er stuðningur við ríkisstjórnina byggður á því að henni sé að takast það hlutverk sitt að reisa við efnahag þjóðarinnar? Er stuðningur við ríkisstjórnina byggður á því að henni hafi farnast vel og muni farnast vel í mikilvægum samningum og samskiptum við erlend ríki, samningum sem gætu haft varanleg áhrif á íslenskt þjóðfélag? Kann þessi ríkisstjórn að forgangsraða verkefnum sínum og leggja ágreinings- og sundrungarmál til hliðar? Treystir þingheimur þessari ríkisstjórn til að verja brýna hagsmuni Íslands? Hefur komið á daginn að henni sé treystandi fyrir því?

Hafa þeir þingmenn, virðulegi forseti, sem hér eru innan dyra og sitja í þeim flokkum sem standa að þessari ríkisstjórn sannfæringu fyrir því að svarið sé já við öllum þeim spurningum sem ég bar upp? Er festa í stjórn landsins? spyr ég. Er hagvöxtur að taka raunverulegan kipp? Þá er ekki verið að tala um þann lágmarkshagvöxt sem þarf til að halda okkur föstum á botninum heldur raunverulega viðspyrnu. Til þess þurfum við 4–5% hagvöxt á ári um nokkurt árabil. Er hann í kortunum?

Til að ná slíkum árangri þarf að fara í gríðarlegar fjárfestingar, bæði erlendar og innlendar. Hvar eru merkin um það? Ríkisstjórn sundurlyndis er ekki sammála um það frekar en annað. Er traust milli ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins? Horfum við fram á aukinn kaupmátt? Er krónunum að fjölga í buddum landsmanna? Svarið við þessu öllu saman er nei. Heimilin segja nei og búa sig undir frekari skattahækkanir og álögur af hálfu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Niðurstaðan er sú að glundroði er í þjóðfélaginu, ríkisstjórnin ætlar í austur þegar þjóðin vill í vestur og það sem er allra verst er að ríkjandi stjórnvöld á Íslandi hafa tapað áttum og heyra ekki lengur hjartslátt þjóðarinnar. Og við því verður að bregðast.

Það er komið að okkur, sögðu forkólfar þessarar ríkisstjórnar veturinn 2009, að skapa ró og frið í þjóðfélaginu. Við ætlum að byggja brýr velferðar og reisa skjaldborg um heimilin. Við skiljum fólkið í landinu.

Hvar eru allar efndirnar?

Virðulegi forseti. Hvað er það sem ræður stuðningi við hugmyndir, við stefnur og við ríkisstjórnir? Hversu miklu máli skiptir að halda liðinu saman og brjóta odd af oflæti sínu í tilteknum málum eða þá hitt að skilja við grundvallarskoðanir sínar í tilteknum hjartans málum til að tryggja sæti annarra í ríkisstjórn? Eða er það svo, eins og liggur í orðum yfirlýsingar hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar fyrr í dag, að það sé inni í myndinni hjá einhverjum að stuðningur við ríkisstjórn sé háður því að viðkomandi hafi tiltekin embætti með höndum?

Virðulegi forseti. Hjarta okkar í þessari merku stofnun verður og á að slá með þjóðinni. Við verðum að skilja hvað það er sem hún kallar eftir. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur biður alltaf um ófrið þegar friður er í boði. Hún kallar alltaf fram ágreining þegar sú leið er fær að leita sátta innan þings og meðal þjóðarinnar. Hún kýs ætíð fortíðarhyggju þegar framtíðin kallar.

Ræða hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag er dæmi um það, endalaus hræðsluáróður, endalaust tal um fyrri ríkisstjórnir, endalaust tal um fyrri stjórnmálaforingja sem fyrir löngu eru farnir úr þessum sal. Hæstv. forsætisráðherra er pikkfastur í fortíðinni. Hún er hlekkjuð við vonlausa stefnu og einstrengingshátt sem í engu skilar okkur áfram. Hverjir styðja og trúa stefnu þessarar ríkisstjórnar? Eru það allir stjórnarliðar? Eru það einstakir þingmenn stjórnarandstöðunnar? Það verður að komast á hreint hvar línurnar liggja.

Seint verður sagt að hæstv. forsætisráðherra tali af virðingu eða með trausti til stuðningsmanna sinnar eigin ríkisstjórnar eða til pólitískra andstæðinga sinna, hrein gífuryrði. Hún þarf stöðugt að smala köttum, segir hæstv. forsætisráðherra um samstarfsmenn sína. Hér er orðin viðtekin venja að tala um órólegar deildir, villiketti og heimilisketti. Í sveitinni þar sem menn kunna að smala og það þarf að sækja ketti er rjómaskálin sett á gólfið. (Utanrrh.: Og smjörklípa.) Getur verið að hér sé rjómaskálin sú að hlaða undir hagsmuni einstakra þingmanna til að berja þá til hlýðni? Menn spyrja sig, virðulegi forseti, hvers vegna þingið nýtur ekki meiri virðingar.

Alþingi þarf að setja framtíðina á dagskrá. Það verður ekki gert með þessa dauðvona ríkisstjórn fortíðarinnar. Hæstv. forsætisráðherra neitar að axla ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut og æpir um fortíðina. Þegar eitthvað bjátar á er það alltaf einhverjum öðrum að kenna. Embættismenn ráðlögðu vitlaust, réðu vitlaust og svöruðu vitlaust. Ekki benda á mig, var sungið einu sinni, og það er söngur hæstv. forsætisráðherra.

Veturinn 2009 sagðist hæstv. forsætisráðherra hafa svarið, verkstjóri, það var talað um verkstjórn hér. Ég er hann. Verkstjórn hæstv. forsætisráðherra er í molum. Það er aðeins eitt svar til handa hæstv. forsætisráðherra, það er að segja sig nú þegar frá verkinu, leggja það í dóm kjósenda í landinu, leyfa íslensku þjóðinni að kjósa um það hvernig hún vill haga stefnumálum sínum til framtíðar. Það verður að koma þessari ríkisstjórn frá og gefa íslensku þjóðinni kost á því að kjósa aftur.