139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[17:43]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Alþingi þarf ekki enn eitt vantraustið. Alþingi þarf traust, málefnalega umræðu, samvinnu og forustu fyrir endurreisn Íslands, en ekki þennan pólitíska sandkassaleik.

Það hefur verið langur vetur frá kreppunni og oft hefur þessi stofnun valdið þjóð sinni vonbrigðum. Í áramótaskaupinu kom það ágætlega fram þegar kallað var eftir því að við á þessum vettvangi legðum til hliðar karpið og deilurnar, tækjum höndum saman, leystum og lykjum málum og ynnum okkur fram á veginn.

Það var sumpart í anda þess að sá óvenjulegi viðburður gerðist í vetur að forusta Sjálfstæðisflokksins ákvað að hefja sig upp yfir hefðbundnar víggirðingar á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, taka hér í þinginu málefnalega afstöðu í erfiðu máli, sýna kjark og axla ábyrgð. Ég er viss um að ég var ekki einn um að binda nokkra von við það að þar sæjum við glitta í þá nýju stjórnmálamenningu sem kallað væri eftir að leysti af hólmi það ömurlega skotgrafakarp sem einkennt hefur íslenska stjórnmálamenningu og leitt okkur til þessa ófarnaðar.

En tilveran er gráglettin og þegar menn höfðu tekið höndum saman þvert yfir víggirðingarnar og lokið málinu kom það í dóm þjóðarinnar. Nú er það þjóðin sem leystist upp í karp og hótaði mönnum hákörlum eða kolanámuþrælkun í Bretlandi ef þeir ekki sinntu vilja hins, og það endaði með því að þessi samhenta niðurstaða mikils meiri hluta í þinginu var felld á laugardaginn.

Þá er forusta Sjálfstæðisflokksins auðvitað í miklum vanda. Það gerist í fyrsta sinn í sögu Alþingis að formaður stjórnmálaflokks flytur vantrauststillögu á ríkisstjórn Íslands til að fela vantraust í eigin flokki. Allt er það svo býsna augljóst að sumir stuðningsmenn stjórnarliðsins brosa lítið eitt út í annað yfir því í hversu miklum vandræðum Sjálfstæðisflokkurinn er og hafa þau þó skapast af því að Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að veita stjórnarliðinu tilstyrk sinn. Svona er nú pólitíkin stundum ómerkileg tík.

Ég hvet forustu Sjálfstæðisflokksins til að draga ekki þá ályktun af því þó að menn hafi tapað einni orrustu að menn eigi að hraðspóla aftur í gömlu skotgrafirnar, drullukökustríðið hér í salnum og hina ómálefnalegu umræðu. Það er það sem einkennir umræðu eins og hér í dag. Auðvitað er það auðvelt, og það vita allir, að gagnrýna ríkisstjórn sem er að störfum á erfiðum tímum enda er fjölmargt sem hefði mátt gera betur. En um leið og það er ástæða til að gagnrýna okkur fyrir verk okkar og annað slíkt vil ég leyfa mér að gagnrýna Sjálfstæðisflokkinn fyrir að koma ekki til þessarar umræðu með neinar tillögur. Þess vegna er tillagan um kosningar (Gripið fram í.) alveg fráleit á þessum stað og þessari stund vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn býður ekki upp á neinn valkost. Hann býður ekki upp á neina aðra efnahagspólitík sem trúverðug er vegna þess að hann hefur ekki gert upp við þá efnahagspólitík sem leiddi okkur í hrunið.

Sjálfstæðisflokkurinn reyndi nefnilega að fara hina ódýru leið. Auðvitað var ekki allt slæmt við efnahagspólitík Sjálfstæðisflokksins í 18 ár, auðvitað var þar margt gott, en greinilega var hún gölluð því að hún leiddi okkur til mikils ófarnaðar. Sjálfstæðisflokkurinn kaus hins vegar að segja að stefnan hefði verið góð, það hefði bara verið vitlaust fólk að framfylgja henni. Gallinn er sá að það er enn þá sama fólkið sem framfylgir stefnu Sjálfstæðisflokksins. Svo er ég ósammála landsfundi Sjálfstæðisflokksins um að þetta hafi bara verið fólkinu að kenna. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn hafi átt marga góða og glæsilega þingmenn hér á þessum vettvangi og eigi enn. En það er stefnan sem þarf endurskoðunar við. Sú efnahagspólitík, þá sjaldan við heyrum hana frá Sjálfstæðisflokknum, er bara 2007-yfirboð. Sjálfstæðismenn lofa lægri sköttum, meiri framkvæmdum og minni skuldum. Það veit hvert barn að slík efnahagspólitík gengur ekki upp og þess vegna er enginn trúverðugur valkostur við efnahagspólitík ríkisstjórnarinnar til að efna til kosninga um.

Það kemur mér satt að segja á óvart að forusta Sjálfstæðisflokksins komi ekki heldur í atvinnumálum til umræðunnar með tillögu eða til þess að tala fyrir atvinnulífinu í landinu. Eru þó mörg tækifæri til þess. Það er að vísu ofmælt hjá forseta Íslands að hér sé atvinnulíf með miklum blóma og að við Íslendingar séum miklu klárari í efnahagsmálum en Moody's. Það er hins vegar margt jákvætt að gerast í íslensku atvinnulífi, þar eru mörg tækifæri og við höfum séð vaxandi fjárfestingar. Ef við höldum rétt á spilunum og höldum áfram að vinna að því mikla uppbyggingarstarfi sem okkur var falið eftir hrun getum við náð gríðarlega miklum árangri. Samdráttarskeiðinu er lokið. Allar helstu hagstærðir, vextir, verðbólga og önnur skilyrði eru orðin býsna hagfelld. Það er tækifæri til þess að snúa hjólum atvinnulífsins virkilega í gang ef menn taka höndum saman.

Það er það sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur verið að gera. Það er búið að leggja fram langtímaefnahagsáætlun og það er verið að fylkja aðilum í samfélaginu til liðs við þá áætlun. Vonandi nást kjarasamningar þannig að ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins geti saman unnið að því að hrinda þeirri framtíðarsýn í verk. Það er það verk sem stjórnarandstaðan á auðvitað að halda áfram að reyna að vinna með okkur hér að, því að sannarlega er öllum góðum tillögum frá stjórnarandstöðunni fagnað af stjórnarliðinu. Sannarlega hefur það þó breyst í stjórnmálamenningu okkar, tillögum þingmanna er vel tekið og tillögur stjórnarandstöðuþingmanna eru m.a.s. stundum samþykktar nú á dögum.

Við höfum þess vegna ekkert með vantraust að gera. Við höfum ekkert að gera með kosningar. Það eru erfiðir tímar, það er úr litlu að spila, það er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Mesti vandinn er þó að baki og uppbyggingin er fram undan. Tími töfralausnanna er liðinn en við Íslendingar megum læra það og eigum að hafa lært það að sígandi lukka er best.