139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þörf væri á því að Alþingi endurheimti trúnað og traust. Hér talar maður af biturri reynslu því að flokkur hans hrökklaðist frá völdum í byrjun árs 2009, rúinn trausti og trúnaði við þjóðina. Hann sagði enn fremur að menn mundu greiða atkvæði hér á eftir á mismunandi forsendum. Það skipti engu máli, sagði formaður Sjálfstæðisflokksins, á hvaða forsendum menn greiddu atkvæði með því að koma höggi á ríkisstjórnina. Er þetta mjög trúverðugt? Skiptir ekki máli hvað það er sem fyrir okkur vakir? Vakir það eitt fyrir þeim sem þannig eru þenkjandi að koma höggi á ríkisstjórnina eða vilja menn með atkvæði sínu stuðla að því að fram fari kosningar hið allra fyrsta, á allra næstu vikum? Telja menn að það þjóni best hagsmunum Íslands? Nei. Þá segi ég hitt, menn öðlast trúnað og skapa traust með verkum sínum, fyrst og fremst með verkum sínum.

Við eigum margt óunnið, uppstokkun á kvótakerfinu, að tryggja almannaeign á auðlindum til sjávarins og landsins. Fyrir þinginu liggur núna frumvarp til nýrra vatnalaga. Hvort er vænlegra að hafa við stjórnvölinn þá flokka sem nú stýra landinu eða Sjálfstæðisflokkinn sem slóst hér við okkur vikum og mánuðum saman til að tryggja og treysta einkaeignarrétt á vatninu, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) flokk sem setti í lög árið 1998 að einkaeignarréttur ætti að taka til vatnsins, kalda vatnsins og líka þess heita? Þau lög erum við nú að taka til endurskoðunar. Við ætlum að stuðla að breytingum á stjórnarskrá Íslands til að styrkja almannaréttinn. Vilja menn kosningar til að fá að stjórnvelinum þau öfl sem vilja ganga í gagnstæða átt?

Menn tala um ESB. Vilja menn flokka sem munu taka ESB-ferlið og setja það til hvílu, í frost, um nokkurra mánaða skeið og halda síðan áfram? Eða vilja menn að við klárum þetta ferli, helst flýtum því, og fáum kosningar hið allra fyrsta um ESB til að fá það út úr heiminum með innan borðs í Stjórnarráðinu aðila sem eru heitir andstæðingar þess að Ísland gangi í ESB? Hvað þjónar hagsmunum andstæðinga ESB best? Ég segi: Núverandi stjórnarmeirihluti.

Ég gæti tekið fjölmörg önnur mál sem núna eru á vinnsluborði Alþingis, lög um velferðarþjónustuna, almannaþjónustuna. Við settum inn í þjónustutilskipun Evrópusambandsins ákvæði gegn einkavæðingu. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn gert það? Nei. Við erum núna að setja það inn í allt laga- og reglugerðarverkið. Þetta hefði Sjálfstæðisflokkurinn ekki gert. Vilja menn kosningar til að fá nýja verkstjórn á rannsókn efnahagsbrotanna eða vilja menn hafa þau í okkar forsjá? Þar er ég verkstjórinn. Ég heiti mönnum því að við munum standa vörð um þessa rannsókn. Ég hef áður sagt að ef við leiðum ekki til lykta þessa rannsókn mun íslenska þjóðin hafa móralska timburmenn í 300 ár. Við ætlum að ljúka þessu verki og við höfum staðið vel að þessari rannsókn. Það eru ýmsar brotalamir sem við viljum laga, en við lögum þær ekki betur með aðkomu Sjálfstæðisflokksins að Stjórnarráðinu að nýju. Við höfum fengið nóg af slíku. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)