139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Íslenskt veðurfar í aprílmánuði er ólíkindatól. Eina stundina er sól í heiði en á næsta augnabliki brestur á með éljahríð. Veturinn er ekki tilbúinn að láta undan fyrir vorinu en við vitum þó öll hvernig fer að lokum, vorið er handan við hornið. (Gripið fram í.) Því er líkt farið með efnahagsástandið. Í kjölfar bankahrunsins skall á efnahagslegur vetur sem til allrar hamingju er jafnt og þétt að gefa eftir. Hin efnahagslega sól er farin að rísa og við sjáum teikn um það víða í samfélaginu.

Hæstv. forsætisráðherra okkar, Jóhanna Sigurðardóttir, fór vel yfir þær tölulegu staðreyndir sem liggja að baki þessari fullyrðingu í ræðu sinni áðan. Þá er ekki skrýtið að Sjálfstæðisflokkurinn komi og segi: Nú get ég og nú vil ég.

Þeir hjá Danske Bank eru oft glöggir á efnahagslegt veðurfar. Þeir sögðu fyrir um frostaveturinn og nú sjá þeir vor í kortunum. Umtalsverða styrkingu krónunnar og 3–4% árlega aukningu landsframleiðslu á næstu tveimur til þremur árum. Ísland er á réttri leið. Það er auðvitað ekki allt í himnalagi, en okkur hefur tekist að snúa þjóðarskútunni við og við stefnum nú í rétta átt. Við erum með stærðarinnar verkefni, að vinna gegn atvinnuleysi. Það er erfitt verkefni og ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vinnur hörðum höndum að því að útrýma hér atvinnuleysi.

Í starfi mínu sem iðnaðarráðherra sé ég alla daga þau tækifæri sem okkur Íslendingum bjóðast. Það eru ekki bara fuglar í skógi heldur verk í hendi sem ég er að tala um. Við getum nefnt fjárfestingar sem orðnar eru að veruleika á þessum vetri fyrir yfir 100 milljarða kr. Í fyrsta lagi eru það breytingar á álveri Rio Tinto, Alcan í Straumsvík, Búðarhálsvirkjun og líka kísilver í Helguvík þar sem framkvæmdir eru að fara á stað. Samanlagt munu þessar fjárfestingar skila hundruðum starfa á uppbyggingartíma á komandi mánuðum og missirum og líka hundruðum starfa til lengri tíma litið.

Eins má nefna að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur horfir til fjölbreyttari uppbyggingu starfa og frumkvöðlasetrin sem við höfum stutt við frá hruni hafa núna skilað um 300 störfum.

Talað er ítrekað um að það ríki framkvæmdastopp í þessu landi. Þvílík öfugmæli, virðulegi forseti. Ég verð að segja það. Fólk sem það segir horfist ekki í augu við veruleikann og fylgist ekki með því sem er að gerast í þessu ágæta landi. (Gripið fram í.) Það liggur nú fyrir, ef ég tek allra varlegustu áætlanir um uppbyggingu í orkugeiranum, að á komandi árum verður byggð hér ný Kárahnjúkavirkjun. Það verður farið í framkvæmdir sem munu skila álíka afli og Kárahnjúkavirkjun skilar. Það er staðreynd þegar við teljum saman Norðausturland, þegar við tökum saman virkjanaáform á Suðvesturlandi. Það eru áform sem sátt ríkir um.

Hér ríkir því ekkert framkvæmdastopp. Landsvirkjun er nú í viðræðum við sex til átta fjárfesta um kaup á orkunni og atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi og þar ríkir samkeppni um að fá að koma til Íslands og nýta þá orku sem við höfum upp á að bjóða til atvinnuuppbyggingar fyrir það svæði. Það má ekki tala það niður, sérstaklega ekki þeir sem vilja að það verði að veruleika, vegna þess að þarna hafa heimamenn unnið hörðum höndum að því að þetta geti orðið að veruleika.

Það skiptir líka máli að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur í fyrsta skipti í sögunni lagt mikla áherslu á að langtímastefnumörkun eigi sér stað Íslandi til heilla. Það hefur aldrei gerst áður að við höfum haft langtímastefnumörkun í atvinnumálum vegna þess að gamaldags hagsmuna- og hentistefna hentaði betur þeim stjórnvöldum sem fóru fyrir þjóðarskútunni á árum áður og leiddi til þess að hér fór allt í kaldakol.

Við erum að ljúka við gerð orkustefnu. Við erum að ljúka við gerð rammaáætlunar á þessu ári þannig að menn geti farið að sjá inn í framtíðina hvernig við ætlum að haga nýtingu okkar á auðlindunum. Við erum að klára orkuskiptaáætlun. Við erum að klára stefnu um erlenda fjárfestingu. Það hefur verið kláruð hér atvinnustefna undir Sóknaráætlun 20/20 og við erum líka að móta hönnunarstefnu til að auka enn frekar verðmæti í íslensku samfélagi.

Það skiptir máli að við sjáum lengra, mótum hér langtímastefnu í staðinn fyrir það bólukerfi sérhagsmuna sem olli því hruni sem við erum að vinna okkur út úr.

Við ætlum okkur með þessari stefnumörkun að leggja grunninn að fjölbreyttu og sterku atvinnulífi.

Ég vil líka nefna ferðaþjónustuna. Flugfélagið Icelandair birti í dag spá sína um fjölda erlendra ferðamanna á þessu ári. Samkvæmt henni er fram undan stærsta ferðamannaár Íslandssögunnar. Þar er gert ráð fyrir metfjölda ferðamanna nú í ár, að aukningu upp á 15–20% í sumar, sem þýðir 100 þúsund ferðamenn til viðbótar við þá 500 þúsund sem hingað koma árlega. (Gripið fram í.)

Það eru gríðarlegar gjaldeyristekjur og það eru gríðarlega góðar fréttir. Það eru fréttir sem segja okkur að við erum á réttri braut þegar kemur að því að styðja við atvinnulífið og vöxt í því. Við höfum stutt vel við ferðaþjónustuna og það er að skila árangri.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mun á næstu dögum kynna metnaðarfullt langtímaverkefni sem miðar að því að fjölga ferðamönnum stórlega utan hins hefðbundna sumarferðatíma þar sem helstu hagsmunaaðilar í greininni munu taka saman höndum ásamt stjórnvöldum til þess að byggja upp vetrarferðamennsku sem mun skila okkur enn meiri tekjum. Þumalputtareglan er að 50 þúsund vetrarferðamenn sem koma hingað geta skilað okkur þúsund störfum. Að því erum við að vinna af heilum hug.

Virðulegi forseti. Það koma alltaf upp pólitísk viðfangsefni sem ekki eru á stefnuskrá þeirra stjórnmálaflokka sem sitja í ríkisstjórn hverju sinni. Þjóðaratkvæðagreiðsla er gott tæki til að leiða slík mál til lykta eins og við höfum séð. Þess vegna er ekki rétti tíminn að koma með vantraust á ríkisstjórn í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, sama hver úrslitin hafa verið. Það segir mér bara eitt, (Forseti hringir.) að Sjálfstæðisflokkurinn er hér grímulaust að sýna hvernig hann ætlar að fara með lýðræðið í framtíðinni. Hann er á móti (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslum. Þetta er ekki leiðin til þess að styðja við breytingar og styrkingu á lýðræðishefðum okkar Íslendinga.