139. löggjafarþing — 111. fundur,  13. apr. 2011.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

751. mál
[18:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum vantraust á þá vinstri velferðarríkisstjórn sem hér situr og fagna ég því þó að til sé máltæki sem hljóðar eitthvað á þá leið „að ekki skuli trufla andstæðinginn þegar hann er að gera mistök“. Mín trú var sú að ríkisstjórnin væri í dauðateygjunum og mundi brátt lognast út af en nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn líklega hleypt nýrri atburðarás af stað og framlengir líf hennar eitthvað fram á vorið. Ég er samt ekki viss um að hún eigi eftir að sitja lengi þó að þessi atlaga að ríkisstjórninni misheppnist hér í kvöld, því svo virðist vera að flokkarnir séu búnir að telja inn sitt lið.

Líklega er tilgangurinn með því að leggja þessa tillögu fram að dempa áhrifin af þeirri atburðarás sem Sjálfstæðisflokkurinn gekk í gegnum varðandi Icesave-málið með stærstan hluta flokksmanna á móti sér, ég skal ekki segja. En sú atburðarás sem þá fór af stað, þegar sjálfstæðismenn tóku undir með ríkisstjórninni og samþykktu Icesave-samninginn nr. 3 hér í þinginu, leiddi það af sér að ríkisstjórnin gat ekki staðið á móti þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór vegna þess að forseti greip inn í í annað sinn, beitti 26. gr. stjórnarskrárinnar og efndi til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við skulum hafa það hugfast að ríkisstjórnin er nú ekki meira fyrir lýðræðisumbætur í landinu en svo að í Icesave-umræðunni kom fram tillaga sem hljóðaði upp á það að Alþingi sjálft mundi vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo varð ekki og felldi ríkisstjórnin það með miklum stæl eins og við munum. Lýðræðisástin er nefnilega bara í orði en ekki á borði hjá ríkisstjórninni.

Það er gjá milli þings og þjóðar. Það er gjá á milli ríkisstjórnarflokkanna og þjóðarinnar. Ríkisstjórnin hefur ekki traust og hún hefur alls ekki traust þjóðarinnar, hvað þá alþjóðasamfélagsins.

Nú eru liðin tæp tvö og hálft ár frá því samfélagið hrundi með gjaldþroti bankanna. Eftirstöðvum þeirra hörmunga er hvergi nærri lokið og okkar mestu hörmungar nú eru þessi vinstri velferðarríkisstjórn eins og hún kallar sig, sem er fullkomlega verklaus fyrir land og þjóð og hefur skrúfað niður atvinnulífið og raunverulega allt mannlegt líf í þessu landi. Hér ganga margir um atvinnulausir og margir hafa það mjög slæmt.

Fyrir kosningarnar fór Samfylkingin, með heilaga Jóhönnu, eins og Samfylkingarmenn slógu því upp sjálfir, fremsta í flokki, hrópandi slagorðin „velferðarbrú“ og „skjaldborg um heimilin“. Sjaldan hefur nokkur stjórnmálaflokkur svikið kjósendur sína jafnilla. Fljótlega kom í ljós að skjaldborgin var um fjármagnseigendur og velferðarbrúin var byggð fyrir eitthvað allt annað en fólkið í landinu því að engin ríkisstjórn hefur skert eins bætur til aldraðra, öryrkja og barnafólks eins og sú ríkisstjórn sem nú situr. Atvinnuleysi er í hámarki og mikið af okkar fólki hefur leitað tækifæra og atvinnu í öðrum löndum. Þetta er sorgleg staða, herra forseti.

Ekki má svo heldur gleyma því að hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, og hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, sátu í hinni svokölluðu hrunstjórn. Og gott betur en það, þau voru miklir gerendur í aðdraganda hrunsins. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sat í fjárlagaráði ríkisstjórnarinnar og mátti því vita hvað var í aðsigi hér á haustdögum 2008 og hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, leysti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur af í veikindum hennar og átti því að vera enn betur ljóst í hvað stefndi. Þessir aðilar hafa því bráðum setið í ríkisstjórn í full fjögur ár. Ábyrgð þeirra er mikil. Þrátt fyrir það steyta þau hnefann, bölva íhaldinu og kenna öllum öðrum en sjálfum sér um.

Um Vinstri græna er það sama að segja með kosningasvikin. Flokkurinn sem barðist harðast á móti aðild að Evrópusambandinu er sá flokkur sem nú vinnur að aðlögun að sambandinu. Formaður flokksins, hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, hefur snarsnúist í öllum veigamiklum málum. Mikil vandræði eru í þingflokki hæstv. fjármálaráðherra. Tveir þingmenn hafa sagt sig úr þingflokknum og eftir barnsburðarleyfi var hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir felld af stóli formanns þingflokksins. Eftir mikla ólgu var henni boðinn stóllinn á ný, sem hún ekki þáði. Skák og mát, herra forseti. Skák og mát. Konur í Vinstri grænum láta greinilega ekki bjóða sér hvað sem er enda gefur flokkurinn sig út fyrir að vera flokkur femínista.

Við Íslendingar eigum betra skilið en þessa verklausu ríkisstjórn. Börnin okkar eiga betra skilið. Framtíðin á betra skilið. Hér ríkir stöðnun, og spólað er í hjólförunum.

Ríkisstjórnin verður dæmd af verkum sínum til allrar framtíðar. Hæstv. umhverfisráðherra var dæmd af Hæstarétti vegna umhverfismála. Hún situr enn. Stjórnlagaþingið var úrskurðað ógilt af Hæstarétti. Ríkisstjórnin sem bar fulla ábyrgð á því situr enn. Hæstv. forsætisráðherra braut jafnréttislög samkvæmt úrskurði og hún situr enn í ríkisstjórninni. Þessi ríkisstjórn virðist ekki þurfa að fara að landslögum.

Þessi ríkisstjórn hefur í þrígang reynt að koma ólögvarinni og ólöglegri kröfu á herðar þjóðinni. Ríkisstjórnin hefur tapað tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum. Og ríkisstjórnin situr enn.

Hæstv. fjármálaráðherra er svo annt um stólinn sinn og stöðu sína hér innan lands að hann þáði ekki boð um að koma og kynna málstað okkar í Icesave-deilunni hjá Evrópuráðinu í Strassborg. Hann tók þar eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni þjóðarinnar.

Frú forseti. Þrátt fyrir þetta eigum við Íslendingar gnótt tækifæra. Við megum ekki missa trúna á framtíðina. Við eigum auðlindir sem okkur ber að nýta. Við eigum fullt af tækifærum, bara ef ríkisstjórnin getur komið sér frá völdum. Við verðum að fella þessa ríkisstjórn ekki seinna en í dag. Þess vegna styð ég þessa tillögu.